Aðalhagfræðingur Seðlabankans: Þörf róttækra breytinga á vinnumarkaðsmódelinu

16.09.2015
Fundurinn var vel sóttur af félagsmönnum FA.
Fundurinn var vel sóttur af félagsmönnum FA.

Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, er þeirrar skoðunar að róttækar breytingar þurfi á íslenska vinnumarkaðsmódelinu. Ísland sé „í allt annarri  heimsálfu“ en önnur iðnríki hvað varðar launahækkanir að undanförnu. Launahækkanir fylgi ekki framleiðniaukningu og muni því óhjákvæmilega auka verðbólgu og skapa þrýsting á gengi krónunnar.

Þetta kom fram á fyrsta félagsfundi vetrarins hjá Félagi atvinnurekenda í morgun. Þórarinn fjallaði þar um stöðu og horfur í efnahagsmálum og benti á að þrátt fyrir góðan hagvöxt og hagstæð utanríkisviðskipti væru ýmsar blikur á lofti og horfur á vaxandi verðbólgu sem Seðlabankinn yrði að takast á við með hækkandi vöxtum.

Aðalhagfræðingurinn sagði að Seðlabankinn hefði í spám sínum gert ráð fyrir mjög ríflegum launahækkunum, en hækkanir launa í nýafstöðnum kjarasamningum væru engu að síður miklu meiri en bankinn hefði spáð. Launahækkanirnar væru langt umfram vöxt framleiðni. Þetta skapaði óhjákvæmilega þrýsting á verðbólguna, nema annað kæmi á móti. Reyndar væru vísbendingar um að gengi krónunnar væri að styrkjast til skemmri tíma, sem hjálpaði til. Einnig væri alþjóðleg verðbólga lítil og verðlækkanir á hrávörum og olíu svo dæmi væru tekin. Þetta næði þó ekki að vega upp á móti áhrifum mikilla launahækkana. Nú stefndi í að verðbólgan færi yfir 4% á næsta ári og horfurnar væru mun verri en áður.

Þórarinn orðaði það svo að launahækkanir á Íslandi í samanburði við samkeppnisríkin væru í „öðru stratosferi“ [heiðhvolfi] og Ísland „í allt annarri heimsálfu“ en önnur iðnríki hvað þetta varðaði. Snarhækkaður launakostnaður á framleidda einingu hlyti að brjótast út í þrýstingi á gengi krónunnar, sem leitaðist við að lækka til að leiðrétta misræmið. Þannig væri verið að búa til viðvarandi þrýsting á gengið og þar með á verðlag. „Við erum komin í ógöngur og verðum að gera róttækar breytingar á vinnumarkaðsmódelinu,“ sagði Þórarinn.

IMG_5374
Þórarinn G. Pétursson

 

Minni framleiðni þýðir lægri laun
Aðspurður hvort ekki væri eðlilegt að íslenskir launþegar gerðu kröfur um sambærileg kjör og launafólk annars staðar á Norðurlöndum, svaraði Þórarinn neitandi. Vegna þess að framleiðni atvinnulífsins væri minni hér en í öðrum norrænum ríkjum yrðu laun líka að vera lægri. Þórarinn beindi meðal annars orðum sínum til atvinnurekenda á fundinum og sagði þá að nokkru leyti bera ábyrgð á því að framleiðni væri hér lélegri en í samkeppnislöndunum.

Hann sagðist telja líkur á að smæð hagkerfisins hefði hér nokkur áhrif; takmörk væru fyrir því hvað fyrirtæki gætu stækkað á innanlandsmarkaði til að ná meiri hagkvæmni. Gjaldmiðillinn stæði ennfremur í vegi fyrir því að þau færðu út kvíarnar út fyrir landsteinana.

„Við getum bölsótast yfir þessu þangað til við erum blá í framan en svona er þetta bara; ef við viljum hækka launastigið þá verðum við að hækka framleiðnistigið,“ sagði Þórarinn. Hann rifjaði upp starf Samráðsvettvangs um aukna hagsæld, sem settur var á laggirnar í kjölfar skýrslu McKinsey um íslenskt efnahagslíf og sagðist hafa áhyggjur af að stjórnvöld hefðu lítinn áhuga á að hrinda tillögum hans í framkvæmd. Nauðsynlegt væri að opna ýmsa markaði á Íslandi fyrir samkeppni. Ný skýrsla OECD sýndi að aðgangshindranir hér væru miklar, sem einnig drægi úr framleiðni. Hér þyrfti að auka frelsi og aðgang útlendinga að íslenskri atvinnustarfsemi, sem þýddi að þekking kæmi inn í hagkerfið og samkeppni ykist.

Þórarinn sagði að þetta þýddi ekki að hann hefði ekki samúð með þeim sem hefðu lág laun, en leiðin til að laga það væri ekki að hækka laun á einu ári um 30%. Afleiðingin yrði verðbólga og þá væri stutt í að krafan um mannsæmandi laun hljóðaði ekki upp á 300 þúsund krónur, heldur teldi fólk sig til dæmis ekki geta lifað af 500 þúsund króna launum.

Glærur Þórarins

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning