Samkeppnisrannsókn ljúki áður en póstfrumvarp fer í gegn

10.02.2016

Pósturinn-logo-300x204Félag atvinnurekenda telur nauðsynlegt að rannsókn Samkeppniseftirlitsins á Íslandspósti ljúki áður en frumvarp innanríkisráðherra um breytingar á lögum um póstþjónustu verður að lögum. Þetta kemur fram í umsögn félagsins um drög að frumvarpinu, sem send hefur verið innanríkisráðuneytinu.

Í frumvarpi ráðherra er meðal annars lagt til að einkaréttur Íslandspósts á bréfasendingum verði afnuminn með innleiðingu á tilskipun Evrópusambandsins frá 2008, en öll önnur aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins hafa fellt einkarétt ríkisins á póstsendingum úr gildi. FA fagnar þessum áformum, en telur engu að síður nauðsynlegt að meiri upplýsingar liggi fyrir um rekstur og stöðu Íslandspósts áður en frumvarpið verði að lögum.

FA vísar til þess að Ólöf Nordal innanríkisráðherra hefur boðað að afnám einkaréttarins sé þáttur í undirbúningi fyrir einkavæðingu ríkisfyrirtækisins. „Að mati FA er nauðsynlegt að ljúka rannsókn Samkeppniseftirlitsins á margvíslegum meintum brotum Íslandspósts á samkeppnislögum, sem staðið hafa í allt að sjö árum, áður en haldið verður áfram á þeirri vegferð að undirbúa einkavæðingu fyrirtækisins. Rannsókn Samkeppniseftirlitsins snýr meðal annars að því hvort Íslandspóstur hafi með ólögmætum hætti brotið gegn ákvæðum laga um bókhaldslegan aðskilnað einkaréttar og samkeppnisrekstrar með því að tekjur af einkaréttarrekstri hafi verið látnar niðurgreiða samkeppnisrekstur,“ segir í umsögn FA. „Þá takast Íslandspóstur og Póst- og fjarskiptastofnun enn á um kostnaðarbókhald félagsins. Ekki hefur verið unnt að birta lögum samkvæmt afkomu mismunandi rekstrarþátta Íslandspósts (einkaréttar, samkeppnisrekstrar innan alþjónustu og samkeppnisrekstrar utan alþjónustu) í síðustu tveimur ársskýrslum fyrirtækisins vegna þess að PFS hefur ekki viðurkennt bókhaldsaðferðir fyrirtækisins.“

FA rifjar upp að Íslandspóstur hefur á undanförnum árum varið háum fjárhæðum í fjárfestingar í skyldum og óskyldum rekstri, í samkeppni við einkaaðila. „Liggja þarf fyrir hver var uppruni þess fjármagns sem fór í þær fjárfestingar og hvort aðskilnaður einkaréttarhlutans og samkeppnisrekstrar hafi verið í samræmi við lög og reglur. Að mati FA er nauðsynlegt að botn sé fenginn í þessi mál áður en einkarétturinn er afnuminn og Íslandspóstur í framhaldinu seldur. Annars er augljóslega vitlaust gefið við einkavæðinguna og hætta á að nýjum eigendum verði afhent fyrirtæki með mikla og ósanngjarna meðgjöf í samkeppni við keppinauta sína,“ segir í umsögn félagsins til innanríkisráðuneytisins.

Umsögn FA um drög að frumvarpi til póstlaga

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning