Enn spurt um afstöðu ráðherra til pöntunarþjónustu Fríhafnarinnar

16.02.2016

FríhöfninFélag atvinnurekenda hefur sent Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra þriðja bréfið á hálfu ári, þar sem spurt er um afstöðu ráðuneytis hans til svokallaðrar Expressþjónustu Fríhafnarinnar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Að mati FA felst í rekstri Expressþjónustunnar ósanngjörn samkeppni við verslunina í landinu, en hún er pöntunarþjónusta sem býður upp á að fólk kaupi vörur án opinberra gjalda á netinu og láti svo aðra sækja þær fyrir sig í Leifsstöð.

FA skrifaði ráðherra um málið í ágúst og aftur í október á síðasta ári. Rifjað var upp að forveri FA, FÍS, skrifaði Friðrik Sophussyni þáverandi fjármálaráðherra árið 1996 og kallaði eftir afstöðu hans til sambærilegrar þjónustu á vegum Fríhafnarinnar, sem þá var kölluð símasala. Ráðherra svaraði daginn eftir og tók í framhaldinu fyrir þessa þjónustu Fríhafnarinnar.

Svarbréf barst frá ráðuneytinu í nóvember, en þar var ekkert efnislegt svar að finna heldur sagðist ráðuneytið vera að skoða málið. „Eins og áður segir hefur ráðuneytið málið enn til skoðunar og gerir sér vonir um að þeirri skoðun verði lokið fyrir árslok 2015,“ sagði í því bréfi.

Í bréfi FA til ráðherra er vísað til orða hans í svari við fyrirspurn á þingi fyrir skemmstu. Þar sagðist hann telja skynsamlegt að auka þátttöku einkaaðila í rekstri fríhafnarverslana en teldi jafnframt „mjög mikilvægt að í þeim efnum verði vandlega gætt að því að raska ekki samkeppnisstöðu gagnvart aðilum sem stunda rekstur utan flugvallarsvæðisins.“

„Í ljósi þessa, og að nú er árið 2015 liðið fyrir allnokkru, leyfir FA sér að ítreka ósk sína um efnislegt svar fjármálaráðherra við upphaflegri fyrirspurn frá því fyrir hálfu ári,“ segir í bréfi Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA til fjármálaráðherra.

Fyrsta bréf FA til fjármálaráðherra

Annað bréf FA til fjármálaráðherra

Svarbréf fjármálaráðuneytisins

Síðasta bréf FA til fjármálaráðherra

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning