Félag atvinnurekenda hefur skilað umsögn til velferðarnefndar Alþingis um frumvarp nokkurra þingmanna um styttingu vinnuvikunnar í 35 stundir.
FA telur ekki ástæðu til að mæla með samþykkt frumvarpsins, enda tæki Alþingi með því fram fyrir hendurnar á samtökum atvinnurekenda og launþega sem semja sín á milli um kaup og kjör, þar á meðal lengd vinnutíma.
Félagið bendir á að með því að kveða í lögum á um styttingu dagvinnutímabils án þess að laun breytist væri Alþingi í raun að ákveða umtalsverða hækkun launakostnaðar atvinnurekenda. „Flutningsmenn virðast halda að stytting vinnutíma með lagaboði sé leið til að auka framleiðni í atvinnulífinu og stytta vinnudag fólks. Hvort tveggja eru góð og nauðsynleg markmið, en verkefnið augljóslega flóknara en svo að stjórnmálamenn geti tekið að sér að leysa það með pennastriki. Nær er að markmiðunum sé náð með samkomulagi milli atvinnurekenda og launþega um breytingar á vinnufyrirkomulagi og þá hugsanlega einnig vinnutíma,“ segir í umsögn FA.
Þá bendir félagið á að flutningsmenn frumvarpsins virðist horfa framhjá því að virkur vinnutími (vinnutími að frátöldum neysluhléum) er samkvæmt mörgum kjarasamningum, m.a. samningum sem FA hefur gert við viðsemjendur sína, um 37 stundir. „Sé síðan horft til fjölda lög- og kjarasamningsbundinna frídaga og lengdar sumarleyfa samkvæmt kjarasamningum er vinnutími íslenzkra launþega yfir árið styttri en hjá flestum öðrum Evrópuþjóðum. Krafa um styttingu dagvinnutíma hefur ekki verið áberandi í kröfugerð stéttarfélaga í kjaraviðræðum undanfarin ár,“ segir í umsögn FA.