Hnökrar á framkvæmd farmiðaútboðs

19.04.2016

KeflavikurflugvollurÝmsir hnökrar voru á útboði ríkisins á flugfarmiðum fyrir starfsmenn stjórnarráðsins, að mati Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda. Ólafur gagnrýnir í samtali við vefsíðuna Túrista hvernig útboðinu var upphaflega stillt upp. Aðeins Icelandair og Wow Air buðu í viðskiptin.

Í upphafi var gerð sú krafa að til að mega bjóða fast verð í flug til þeirra þriggja áfangastaða sem starfsmenn stjórnarráðsins ferðast oftast til, yrði viðkomandi flugfélag að fljúga til þeirra allra. „Það hefði útilokað aðra en Icelandair. Eftir að gerðar voru athugasemdir við þetta, var fallið frá þessu skilyrði,“ segir Ólafur við Túrista.

Stjórnarráðið vildi líka upphaflega að flugfélög sem buðu í viðskiptin hefðu íslenskumælandi þjónustufulltrúa á vakt allan sólarhringinn. Þetta þrengdi augljóslega hóp flugfélaga sem treystu sér til að bjóða. „Upphaflega skilyrðið um að hafa íslenskumælandi þjónustufulltrúa til taks allan sólarhringinn var líka sérkennilegt. Ef stjórnarráðið treystir starfsfólki sínu til að fara á fundi í útlöndum hlýtur því líka að vera treystandi til að tala við þjónustufulltrúa flugfélags á öðru tungumáli en íslensku,“ segir Ólafur.

Útboðslýsingar þrengja hópinn
Framkvæmdastjóri FA bendir á að útboðslýsingar í opinberum útboðum séu oft þannig úr garði gerðar að þær þrengi hópinn sem getur tekið þátt og þar af leiðandi nýtist ekki kostir samkeppninnar til að ná sem hagstæðustu verði fyrir skattgreiðendur.

„Það má líka setja spurningarmerki við að ríkið vilji bara fá fast verð í þrjár flugleiðir, en biðji um afsláttarkjör á öðrum. Svipuð leið var farin í síðasta flugmiðaútboði árið 2011. Kærunefnd útboðsmála komst þá að þeirri niðurstöðu að hafna hefði átt tilboði Icelandair í viðskiptin, þar sem það væri augljóslega svo miklu óhagstæðara en tilboð Iceland Express. Það segir sig sjálft að það er hagstæðara fyrir skattgreiðendur að ríkið fái tilboð um fast, lágt verð á tilteknum flugleiðum en að í boði sé afsláttur frá háu verði,“ segir Ólafur í viðtalinu við Túrista.

Til stendur að bjóða út farmiðaviðskipti allra opinberra stofnana á næstunni, en nýafstaðið útboð tekur eingöngu til stjórnarráðsins, þ.e. ráðuneytanna. „Þá er tækifæri til að læra af reynslunni og lagfæra það sem misfórst í þessu útboði“, bætir Ólafur við.

Viðtal við Ólaf Stephensen á Túrista

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning