Stórtækur svínakjötsframleiðandi fær 70% af tollkvótanum

06.05.2016

SvínakjötMata hf., systurfyrirtæki Síldar og fisks hf., fær í ár tæplega 70% af tollfrjálsum innflutningskvóta fyrir svínakjöt samkvæmt samningi Íslands og Evrópusambandsins um fríverslun með búvörur. Fyrirtækin eru bæði í eigu Langasjávar hf., sem aftur er að stærstum hluta í eigu Coldrock Investments á Möltu. Síld og fiskur hefur að mati samkeppnisyfirvalda 40-45% markaðshlutdeild á svínakjötsmarkaðnum.

Undanfarin ár hefur Mata átt einna hæst boð í tollfrjálsan kvóta fyrir innflutning á svínakjöti skv. samningi Íslands og Evrópusambandsins frá 2007. Sum árin hefur Mata fengið meirihluta tollkvótans sem atvinnuvegaráðuneytið úthlutar eins og sjá má í meðfylgjandi töflu. Í ár, 2016, fær fyrirtækið í sinn hlut nærri 70% af tollfrjálsum innflutningsheimildum samkvæmt samningum við ESB. Tollkvótinn er 200 tonn og fær Mata í sinn hlut tæplega 139 tonn. Ætla verður að þessi innflutningur sé nýttur á vegum systurfyrirtækisins Síldar og fisks og kjötið ýmist unnið áfram eða pakkað í neytendaumbúðir á þess vegum.

Svínakjötskvóti Mata

„Við höfum lengi bent á ýmsar neikvæðar hliðar á því fyrirkomulagi að bjóða upp tollkvóta fyrir búvörur og úthluta honum til hæstbjóðenda. Útboðsgjaldið fer stöðugt hækkandi og étur upp ávinning neytenda af tollfrelsinu sem samið var um við ESB,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. „Ein neikvæð afleiðing þessa kerfis er að innlendum framleiðendum er í lófa lagið að bjóða hátt í innflutninginn og halda þannig uppi verði á honum. Þannig verða neytendur af þeirri verðlækkun sem var yfirlýstur tilgangur með samningunum við Evrópusambandið á sínum tíma.“

Í Fréttatímanum í síðustu viku var reiknað út að dótturfyrirtæki Langasjávar, Síld og fiskur og Matfugl, fengju 2,5 til 2,9 milljarða stuðning frá neytendum í formi tollverndar á svína- og alifuglakjöti. Það var sagt kostulegt í ljósi þess að langstærsti eigandi Langasjávar væri aflandsfélagið Coldrock Investments. „Það skýtur skökku við að fyrirtæki sem fá milljarða meðgjöf frá neytendum í formi hárra innflutningstolla skuli jafnframt komast í aðstöðu til að hækka verðið á þeim vörum sem átti að flytja inn á engum eða lágum tollum til að búa til samkeppni við innlendan landbúnað,“ segir Ólafur.

Viðtal við Ólaf Stephensen á Stöð 2

Nýjar fréttir

Innskráning