Sala á skattfrelsi er sýndarmennska

15.08.2016

IMG_4609Félag atvinnurekenda hefur sent atvinnuveganefnd Alþingis nýja skýrslu hagfræðinganna Þórólfs Matthíassonar og Arnar Ágústssonar um aðferðir við úthlutun tollkvóta fyrir búvörur samkvæmt alþjóðlegum samningum. Skýrslan var kynnt utanríkismálanefnd í síðustu viku, í tengslum við umræður um tollasamning Íslands og Evrópusambandsins, sem bíður staðfestingar þingsins.

„Því er haldið fram að markmið þessara tollkvóta sé að stuðla að viðskiptum á milli landa með hag neytenda að leiðarljósi. Að heimila innflutning á engum eða lægri tollum vinnur að því markmiði, en að taka á sama tíma gjald fyrir þennan innflutning vinnur gegn því. Af þeirri ástæðu verður að teljast óskiljanlegt að stefnt sé að því að fella niður eina tegund gjalda og innheimta aðra,“ segir í bréfi FA til atvinnuveganefndar. „Í stað þess að greiða skatta í ríkissjóð kaupa innflytjendur sér skattfrelsi hjá ríkinu og greiða fyrir það í ríkissjóð verð sem nemur allt að skattinum sjálfum. Allt að einu er niðurstaðan sú sama. Slík sala á skattfrelsi verður á endanum lítið annað en sýndarmennska.“

FA ítrekar ennfremur það sem félagið hefur áður sagt um núverandi kerfi uppboða á tollkvótum:

  • Það er afar hæpið að uppboðin standist ákvæði í samningi Íslands og ESB þar sem kveðið er á um að samningsaðilar skuli tryggja að ávinningnum sem þeir veita hvor öðrum sé ekki í hættu stefnt með „öðrum takmarkandi innflutningsráðstöfunum“. Sífellt hækkandi útboðsgjald étur upp ávinning neytenda af tollfrelsinu og vinnur gegn markmiðum samninga um fríverslun.
  • Hæstiréttur hefur dæmt útboðsgjaldið ólögmætt og ríkissjóður þurft að endurgreiða innflytjendum háar fjárhæðir. Að mati FA er fyrirkomulag úthlutunar tollkvóta áfram ólögmætt og viðbúið að innflutningsfyrirtæki haldi að óbreyttu áfram að sækja rétt sinn fyrir dómstólum.
  • Af þessum sökum eru það gagnkvæmir hagsmunir innflytjenda búvöru, neytenda og ríkisins að fundið verði fyrirkomulag sem tryggir sanngjarna og hagkvæma úthlutun tollkvóta.

FA segist reiðubúið til samstarfs við Alþingi um hvernig koma megi fyrirkomulagi úthlutunar tollkvóta í betra og skynsamlegra horf.

Bréf FA til atvinnuveganefndar

Skýrsla um aðferðir við úthlutun tollkvóta

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning