Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Viðskiptablaðinu 25. ágúst 2016
Það kom sumum á óvart þegar Gunnar Bragi Sveinsson, þáverandi utanríkisráðherra, og Sigurður Ingi Jóhannsson, þáverandi landbúnaðarráðherra, tilkynntu í sameiningu að þeir hefðu samið við Evrópusambandið um gagnvæma lækkun tolla á búvörum. Hvorugur hefur verið þekktur sem sérstakur áhugamaður um viðskiptafrelsi. Engu að síður voru ráðherrarnir hinir bröttustu og lýstu því yfir að samningurinn myndi auka vöruúrval og lækka vöruverð og væri „til hagsbóta“ og „fagnaðarefni“ fyrir neytendur. Einhverjum datt meira að segja í hug að ráðherrarnir hefðu staðið í lappirnar gagnvart sérhagsmunum í landbúnaði, sem standa báðum nærri.
Nú er annað komið á daginn. Hagsmunaaðilar í landbúnaði ærðust yfir því að fá samkeppni, jafnvel þótt hún sé afar takmörkuð. Daginn sem Gunnar Bragi tók við embætti landbúnaðarráðherra af Sigurði Inga setti hann í gang starfshóp um viðbrögð við tollasamningnum. Þar áttu sæti fulltrúar ríkisins, nokkrir fulltrúar landbúnaðarins og einn frá innlendum iðnaði. Enginn fulltrúi neytenda eða innflytjenda búvöru átti sæti í hópnum.
Það kemur því ekki á óvart, nú þegar tillögur hópsins liggja fyrir, að þær ganga að stórum hluta út á að hafa af neytendum aftur þann ávinning, sem felst í tollasamningnum. Það á m.a. að gerast með því að minnka opna tollkvóta fyrir innflutning á vörum sem innlendur landbúnaður annar ekki eftirspurn eftir, með því að bjóða tollkvóta oftar upp, gera innflytjendum þannig erfiðara fyrir og hækka verðið til neytenda, og með því að setja harðari heilbrigðiskröfur gagnvart vörum, sem þegar hafa staðizt heilbrigðiseftirlit samkvæmt sömu matvælalöggjöf og gildir á Íslandi. Starfshópurinn telur ekki nóg að verksmiðjubúskapur svína- og kjúklingaræktenda njóti mests stuðnings allra búgreina í formi tollverndar, heldur vill hann að tekjum af tollunum verði ráðstafað til verksmiðjubúanna og þau fái lán frá ríkinu á vöxtum sem skattgreiðendur niðurgreiði!
Meirihluti atvinnuveganefndar Alþingis vill svo fela Gunnari Braga Sveinssyni, ráðherranum sem undirritaði tollasamninginn, að hrinda þessum tillögum í framkvæmd. Það gerir ráðherrann eflaust með ánægju, því að nú liggur fyrir að umhyggjan fyrir viðskiptafrelsinu og hagsmunum neytenda var fölsk. Framsóknarráðherrarnir gæta sömu sérhagsmuna og þeir eru vanir.