Stofnfundur Íslensk-taílenska viðskiptaráðsins

30.08.2016

Isl_tai_vidskiptarad_logoStofnfundur Íslensk-taílenska viðskiptaráðsins verður haldinn í húsakynnum Félags atvinnurekenda þriðjudaginn 6. september næstkomandi kl. 16. Stofnfundurinn verður stuttur og fer fram í lok málþings um tækifæri í viðskiptum Íslands og Taílands, sem hefst kl. 14.

Unnið hefur verið að stofnun ráðsins í sumar, eftir að taílensk stjórnvöld óskuðu samstarfs við FA um að halda málþing um tækifæri í Taílandsviðskiptum. Hefur FA átt gott samstarf við sendiráð Taílands í Kaupmannahöfn, sem jafnframt fer með fyrirsvar gagnvart Íslandi, og Önnu M. Þ. Ólafsdóttur, aðalræðismann Taílands, um undirbúning málþingsins og stofnfundarins.

Á annan tug fyrirtækja hefur nú skráð sig sem stofnfélaga og öllum sem áhuga hafa er að sjálfsögðu velkomið að bætast í hópinn. Þar eru fyrirtæki sem stunda eða hyggja á útflutning til Taílands, fyrirtæki sem flytja inn vörur frá Taílandi og fyrirtæki í eigu Taílendinga búsettra á Íslandi.

Á fundinum verður kosin stjórn viðskiptaráðsins, drög að samþykktum ráðsins borin upp og tekin ákvörðun um félagsgjald. Tillaga undirbúningsnefndar er að gjaldið verði 15.000 krónur fyrir einstaklinga og smærri fyrirtæki og 30.000 fyrir stærri fyrirtæki. Fundarstjóri á stofnfundinum er Inga Skarphéðinsdóttir, lögfræðingur FA.

Að loknu málþinginu og stofnfundinum verður móttaka með taílenskum veitingum. Dagskránni lýkur um kl. 17.

Drög að samþykktum ráðsins er að finna hér að neðan. Þær eru með svipuðu sniði og samþykktir Íslensk-kínverska viðskiptaráðsins og Íslensk-indverska viðskiptaráðsins, sem FA rekur nú þegar. Þar segir meðal annars um tilgang ráðsins: „Ráðið hefur það verkefni, að efla verslunar- og viðskiptasambönd milli Taílands og Íslands. Líta ber á ráðið sem vettvang til skoðana- og upplýsingaskipta milli viðskiptaaðila og ríkisstjórna beggja landa. Ráðið mun leitast við að styrkja hagsmuni félagsmanna með því að stuðla að nánara sambandi fyrirtækja beggja landa.“

Drög að samþykktum ÍTV

Skráning á fundinn

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning