Íþyngjandi kröfum verði ekki bætt við Evrópureglur

19.10.2016
Inga Skarphéðinsdóttir fer yfir áherslur FA.
Inga Skarphéðinsdóttir fer yfir áherslur FA.

Fulltrúar allra flokka sem mættu á fund Félags atvinnurekenda um samkeppnismál og regluverk atvinnulífsins í morgun voru sammála um að við innleiðingu Evrópureglna ætti ekki að bæta við íslenskum sérkröfum sem væru íþyngjandi fyrir atvinnulífið. Frambjóðendur voru sömuleiðis sammála um að gera þyrfti betur í því að einfalda regluverk atvinnulífsins.

Í upphafi fundar fór Inga Skarphéðinsdóttir, lögfræðingur FA, yfir áherslur félagsins í málaflokknum og benti meðal annars á að við innleiðingu Evrópureglna væri það svigrúm, sem íslensk stjórnvöld hefðu, oft ekki notað til að ívilna atvinnulífinu heldur væri íþyngjandi reglum þvert á móti bætt við, eins og FA hefur gagnrýnt. Inga nefndi sem dæmi að þegar innleidd var Evróputilskipun um ársreikninga, sem einfaldar mjög ársreikningaskil örfyrirtækja, var skilgreiningin á örfyrirtækjum þrengd frá því sem var í tilskipuninni. Það þýðir að færri íslensk fyrirtæki en ella njóta ívilnunarinnar.

Frambjóðendur voru spurðir hvort þeir vildu gera að reglu að við innleiðingu Evrópureglna í íslensk lög væri engum íþyngjandi reglum fyrir atvinnulífið bætt við af hálfu íslenskra stjórnvalda.

Aukakröfum lætt inn í frumvörp
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, frambjóðandi VG, sagðist telja að slík regla yrði til bóta en hún væri ekki í stefnuskrá VG. Þó gæti verið skynsamlegt að hafa séríslenskar reglur, það yrði að vega og meta í hvert sinn.

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að það væri rétt að ráðuneytin læddu stundum aukakröfum inn í frumvörp til innleiðingar á Evrópulöggjöf. Efnahags- og viðskiptanefnd hefði á þessu kjörtímabili verið duglegri en oftast áður að snúa við slíkum tilraunum.

Árni Páll, Sigríður og Rósa Björk.
Árni Páll, Sigríður og Rósa Björk.

Laumufarþegarnir ekki kostnaðargreindir
Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að erfitt væri að banna viðbótarkröfur, en hægt væri að gera þá kröfu að þær væru skýrt rökstuddar og aðgreindar frá efni sjálfrar innleiðingar Evrópureglnanna. Frumvörp, sem væri ætlað að innleiða Evrópurétt, væru oft of grautarleg. Oft væri engin leið að átta sig á því við lestur þeirra hvaða ákvæði væri skylt að innleiða samkvæmt Evrópurétti, hvað væri matskennt og hverjar viðbótarkröfurnar væru. „Ég held að það sé mjög mikilvægt að í frumvörpunum sé gerð rík krafa um að menn greini nákvæmlega innleiðinguna og valið um svigrúm,“ sagði Árni Páll. Hann benti á að hættan fælist í að verið væri að bæta við kröfum á atvinnulífið, sem ekki hefðu verið kostnaðargreindar. „Kosturinn við Evróputilskipanirnar er að þær hafa verið ræddar efnislega á vettvangi aðila vinnumarkaðarins á evrópskum vettvangi árum saman og það er alveg búið að greina kosti og galla við að ganga lengra eða skemmra í þessum málum. Laumufarþegarnir hafa ekki sætt sömu efnisgreiningu á kostum og göllum.“

Lagaskrifstofa gæti gripið laumufarþegana
Theodóra Þorsteinsdóttir, frambjóðandi Bjartrar framtíðar, sagði að erfitt væri að átta sig á hvar vandinn lægi, hvort um það væri að ræða að ráðuneytin störfuðu ekki í takt við löggjafann eða ákvæði stjórnarsáttmála um einföldun regluverks. „Það er dapurlegt ef þarf að setja stífa reglu til að koma í veg fyrir eitthvað svona,“ sagði Theodóra. Hún sagði að skýrari stefnu vantaði og markmið sem ráðuneytin ættu að fylgja eftir.

IMG_28791
Frambjóðendur á fundi FA.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, frambjóðandi Viðreisnar, sagði að þetta væri spurning um vinnulag. Allt frá gildistöku EES hefði Ísland ekki alveg náð að höndla innleiðingu Evróputilskipana. Hún tók undir með Árna Páli um að það yrfi að vera miklu skýrara í frumvörpum til innleiðingar á Evrópureglum hvaða ákvæði væru heimatilbúin og kæmu innan úr stjórnarráðinu. „Meginreglan á að vera sú að það á ekki að bæta neinu við nema það sé mjög skýrt af hverju er verið að gera það,“ sagði Þorgerður. Hún sagði að dæmi um slíkt gæti til dæmis verið setning kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja, sem stuðlaði að jafnrétti umfram það sem hefði náðst í ESB.

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að ákveðinn freistnivandi væri í ráðuneytunum; þau væru með undirstofnanir sem sæju tækifæri til að ná undir sig nýjum verkefnum og stækka fjárlagarammann. Hann rifjaði upp tillögu Vigdísar Hauksdóttur um lagaskrifstofu Alþingis, sem greindi mál sem kæmu inn. Hún gæti til dæmis tekið á „laumufarþegunum.“

Á fundinum var einnig ágæt samstaða um að einfalda bæri regluverk atvinnulífsins almennt, en talsvert skiptar skoðanir um samkeppnislög og hvort auka bæri eða takmarka heimildir Samkeppniseftirlitsins. Hægt er að horfa á upptöku af fundinum á Facebook-síðu FA.

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning