Atvinnuvegaráðuneytið hefur svarað bréfi Félags atvinnurekenda frá 2. janúar síðastliðnum, þar sem farið var fram á rökstuðning og gögn vegna ákvörðunar ráðuneytisins um að fjölga útboðum tollkvóta á búvörum yfir árið. Fjölgun útboða stuðlar að verulegri hækkun verðs á kvótanum og þar með hækkun á verði innfluttra búvara. Af bréfi ráðuneytisins má ráða að hvorki hafi verið haft samráð við fulltrúa innflytjenda né neytenda áður en ákvörðunin var tekin. FA átelur þessa stjórnsýslu harðlega og skorar á nýjan landbúnaðarráðherra að endurskoða ákvörðun ráðuneytisins.
Í bréfi FA í ársbyrjun var með vísan til stjórnsýslulaga farið fram á svör við eftirfarandi spurningum:
- hvaða gögn og rannsóknir á hagsmunum aðila lágu fyrir áður en umrædd ákvörðun var tekin?
- við hvaða aðila var haft samband áður en umrædd ákvörðun var tekin?
- hvaða aðilar lögðu það til við ráðuneytið að umrædd breyting ætti sér stað?
- hvaða rannsóknir fóru fram á röskun á réttmætum væntingum þeirra aðila sem kerfið tekur til um að njóta áfram sama starfsumhverfis?
Jafnframt var óskað eftir afriti af öllum vinnugögnum ráðuneytisins vegna ákvörðunarinnar og samskiptum aðila við ráðuneytið vegna hennar.
Einvörðungu byggt á tillögum starfshópsins
Svari ráðuneytisins fylgja aðeins þrjú plögg; greinargerð starfshóps landbúnaðarráðherra sem settur var á fót til að bregðast við tollasamningi Íslands við ESB, fundargerð ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara frá 31. maí 2016 og meirihlutaálit atvinnuveganefndar Alþingis vegna búvörusamningafrumvarpsins, frá 31. ágúst 2016. Ekki eru sögð liggja fyrir önnur gögn í málinu.
Af bréfinu má ráða að ákvörðunin um að fjölga útboðum á tollkvóta hafi eingöngu verið tekin á grundvelli tillagna starfshóps ráðherra. Hópurinn var einvörðungu skipaður fulltrúum ríkisins, landbúnaðarins og annarra innlendra framleiðenda, en hvorki var leitað til fulltrúa innflytjenda né neytenda. FA gagnrýndi bæði skipan og tillögur hópsins harðlega síðastliðið sumar, eftir að tillögurnar urðu opinberar.
Ekkert samráð við innflytjendur eða neytendur
Þá er í bréfi ráðuneytisins rifjað upp að meirihluti atvinnuveganefndar vakti athygli á því í áliti sínu að nefndinni hefði verið bent á að fjölgun útboða á tollkvóta kynni að leiða til hækkunar á smásöluverði innfluttra búvara. FA setti þá ábendingu fram er fulltrúar félagsins mættu á fund nefndarinnar. Í nefndarálitinu er í framhaldinu hvatt til þess að ráðherra hafi „samráð við hagsmunaaðila um útfærslu í þessa vegu.“ Ekki kemur fram í bréfinu að neitt samráð hafi verið haft við fulltrúa innflytjenda eða neytenda um breytinguna.
Í lok bréfsins bendir ráðuneytið á að úthlutun tollkvóta fyrir seinni hluta ársins hafi enn ekki farið fram. „Ráðuneytið hefur farið fram á það við ráðgjafarnefndina að meta reynsluna af tvískiptri úthlutun áður en tekin verður ákvörðun um hvernig úthlutun verður hagað til framtíðar litið. Í þessu samhengi er rétt að halda því til haga að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að ráðstöfun innflutningskvóta verði endurskoðuð á yfirstandandi kjörtímabili með hagsmuni neytenda að leiðarljósi,“ segir í niðurlagi bréfsins.
Ráðherra afturkalli breytinguna
„Þessi svör ráðuneytisins staðfesta það sem við höfum áður sagt, að þetta er algjörlega óboðleg stjórnsýsla,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Ekkert mark var tekið á gagnrýni FA eða annarra hagsmunasamtaka á áform um að breyta útboðsfyrirkomulaginu. Í þessu ferli voru hvorki fulltrúar innflytjenda búvöru né neytenda spurðir álits eða leitað hjá þeim upplýsinga. Nú er komið í ljós að þessi breyting, ásamt ákvæðum í búvörusamningum um hækkun tolla á mjólkurvörur, veldur verulegum verðhækkunum og skaðar samkeppni á búvörumarkaði og hagsmuni neytenda. Við skorum á nýjan landbúnaðarráðherra að afturkalla þessar breytingar á tíðni útboða, um leið og fyrirkomulag úthlutunar tollkvóta er endurskoðað í heild.“
Bréf atvinnuvegaráðuneytisins til FA 20. janúar 2017