Íslensk-kínverska viðskiptaráðið, sem hýst er hjá Félagi atvinnurekenda, tekur í vor og sumar á móti þremur viðskiptasendinefndum frá Foshan-borg í Kína. Stjórn og framkvæmdastjóri ÍKV funduðu með þeirri fyrstu í húsakynnum félagsins í morgun.
Foshan er átta milljóna manna borg í Guangdong-héraði í Kína og blómstrar þar margvíslegur iðnaður og viðskipti. Á meðal helstu útflutningsvara borgarinnar eru byggingavörur, heimilistæki og ál. Á meðal fulltrúa í sendinefndinni var Qiao You, varaborgarstjóri Foshan.
Á fundinum var rætt um viðskipti Íslands og Kína og gagnkvæmar fjárfestingar. Fulltrúar Foshan lýstu meðal annars áhuga Kínverja á heilsuvörum frá Íslandi, til dæmis lýsi. Þá var rætt um þróun ferðamennsku og möguleika á beinu flugi milli Íslands og Kína.