Ekkert bólar á „tafarlausum aðgerðum“ eftir 18 mánuði

28.04.2017

Innanríkisráðuneytið hefur ekki brugðist við tilmælum Samkeppniseftirlitsins frá því í október 2015 um að grípa til „tafarlausra aðgerða“ til að draga úr samkeppnishindrunum við úthlutun afgreiðslutíma til flugfélaga á Keflavíkurflugvelli. Félag atvinnurekenda leggur nú í þriðja sinn spurningar fyrir ráðherra samgöngumála um hvað hafi verið gert í málinu.

Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu, í framhaldi af kvörtun Wow Air, að fyrirkomulag við úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli raskaði samkeppni, til tjóns fyrir viðskiptavini, keppinauta í áætlunarflugi og samfélagið allt. Þeim tilmælum var beint til innanríkisráðherra að hann beitti sér „fyrir tafarlausum aðgerðum sem miði að því að draga úr þeim samkeppnishindrunum sem skilgreindar hafa verið í áliti þessu. Við þær aðgerðir verði hagsmunum almennings af virkri samkeppni í áætlunarflugi gefinn forgangur.“

FA skrifaði innanríkisráðuneytinu fyrst vegna málsins í febrúar 2016. Engin viðbrögð bárust og var bréfið ítrekað í júní í fyrra. Svar barst í júlí og var þar greint frá því að málið væri í vinnslu innan ráðuneytisins og niðurstaðna að vænta haustið 2016.

Í bréfi FA, sem sent var Jóni Gunnarssyni samgönguráðherra í dag, eru spurningar félagsins til ráðherra ítrekaðar:

  • Hefur ráðherra beitt sér fyrir aðgerðum til að draga úr samkeppnishindrunum við úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli?
  • Ef svo er, til hvaða aðgerða?
  • Ef ekki, hvers vegna ekki?

„Félagið telur ekki boðlegt að einu og hálfu ári eftir að tilmæli Samkeppniseftirlitsins voru gefin út, hafi ráðherra ekki brugðizt við þeim með neinum hætti. Það getur að minnsta kosti ekki flokkazt undir „tafarlausar aðgerðir“. Í ljósi þess að ekkert hefur frétzt af niðurstöðu vinnunnar leyfir FA sér að ítreka spurningar sínar til ráðherra og óskar svars hið fyrsta,“ segir í bréfi FA.

Bréf FA til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra 28. apríl 2017

Svarbréf innanríkisráðuneytisins til FA 11. júlí 2016

Bréf FA til innanríkisráðherra 3. júní 2016

Bréf FA til innanríkisráðherra 26. febrúar 2016

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning