Innflutningur á ferskum búvörum mun ekki hafa neikvæð áhrif á heilsu manna og dýra

20.07.2017

Ekki eru haldbær rök fyrir því að innflutningur á ferskum eggjum, vörum úr ógerilsneyddri mjólk og fersku kjöti muni hafa neikvæð áhrif á lýðheilsu fólks og heilsufar dýra. Ekki virðist heldur hægt að fullyrða að innflutningur á þessum vörum muni hafa áhrif á útbreiðslu lyfjaþolinna baktería. Aukinn fjöldi fólks sem ferðast til og frá landinu virðist líklegri til að hafa áhrif á útbreiðslu lyfjaþols en innflutningur á matvælum.

Þetta er á meðal niðurstaðna skýrslu um innflutning búvöru og heilbrigði manna og dýra, sem ráðgjafarfyrirtækið Food Control Consultants vann fyrir Félag atvinnurekenda. Félagið beindi til fyrirtækisins nokkrum spurningum vegna umræðna um innflutning ferskrar búvöru og er þeim svarað í ýtarlegu máli í skýrslunni.

Enn sem komið er ríkir bann við innflutningi á fersku kjöti, ferskum eggjum og vörum úr ógerilsneyddri mjólk á Íslandi. Að mati Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) brjóta þessi bönn gegn EES-samningnum og byggjast ekki á vísindalegum rökum. EFTA-dómstóllinn og Héraðsdómur Reykjavíkur hafa komist að þeirri niðurstöðu að bann við innflutningi á fersku kjöti fari í bága við EES-samninginn. Mál ESA gegn íslenska ríkinu vegna innflutningsbanns á kjöti annars vegar og eggjum og mjólkurvörum úr ógerilsneyddri mjólk hins vegar hafa verið sameinuð hjá EFTA-dómstólnum. Málflutningur verður í haust og má vænta dóms öðru hvoru megin við áramót. Niðurstöðu Hæstaréttar í máli Ferskra kjötvara gegn íslenska ríkinu vegna banns við innflutningi á fersku kjöti má vænta á svipuðum tíma.

Höfundar skýrslunnar skoðuðu sérstaklega stöðuna í Noregi, en þar hefur ferskt kjöt, egg og mjólkurvörur úr ógerilsneyddri mjólk verið flutt inn um árabil í samræmi við reglur EES. Niðurstaðan er að frjálst flæði þessara vara hafi hvorki haft áhrif á lýðheilsu né dýraheilbrigði í Noregi.

Í umræðum um innflutning kjöts hefur talsvert verið gert úr því að önnur ríki EES noti meira af sýklalyfjum í landbúnaði en Ísland og innflutningur á búvörum geti orsakað aukið þol gegn sýklalyfjum hjá fólki. Skýrsluhöfundar vísa til nýlegra rannsókna í Danmörku og Hollandi sem benda til að lítið samhengi sé á milli lyfjaþolinna baktería í fólki og þeirra sem finnast í matvælum. Niðurstaða þeirra er að ofnotkun sýklalyfja í heilbrigðiskerfinu sé nær alfarið orsök lyfjaþols sýkla hjá fólki.

Eftirlit með sýklalyfjaleifum og fjölónæmum bakteríum í kjöti er enn sem komið er minna á Íslandi en í öðrum ríkjum EES, þar sem reglur ESB um skráningar og tilkynningar vegna lyfjaþolinna sýkla hafa enn ekki verið innleiddar hér á landi. Búist er við að reglurnar verði innleiddar bráðlega og sýnatökur á grundvelli þeirra verði framkvæmdar á þessu ári.

Höfundar benda á að ástæða sé til að huga vel að frárennslismálum til að fyrirbyggja sýklalyfjaóþol hjá fólki. Skólp og frárennsli séu einn helsti skaðvaldurinn hvað varðar bakteríumengun í umhverfinu, en í ljós hafi komið að frárennslismál séu víða í ólestri á Íslandi. Enn ríkari ástæða sé til að huga vel að frárennslismálum þar sem gífurleg aukning hafi orðið í fjölda fólks á landinu vegna ferðamannastraums.

Food Control Consultants er staðsett í Edinborg en hefur unnið að verkefnum á sviði matvælaeftirlits og matvælaöryggis víða um heim, meðal annars fyrir Evrópusambandið, íslensk stjórnvöld og Bændasamtök Íslands. Höfundar skýrslu fyrirtækisins eru Ólafur Oddgeirsson og Ólafur Valsson, sem báðir hafa áratuga starfsreynslu á sviði dýralækninga, matvælaeftirlits og matvælaöryggis.

Útdráttur úr skýrslunni (4 bls.)

Skýrslan í heild (64 bls.)

Nýjar fréttir

Innskráning