Hæstu áfengisskattar í Evrópu – Léttvínskassinn hækkar um meira en 500 kr.

14.09.2017

Þegar fjárlagafrumvarp ársins 2017 var lagt fram, spurði Félag atvinnurekenda hvort engin takmörk væru fyrir skattlagningu á áfengi. Með fjárlögunum 2017 voru hæstu áfengisgjöld í Evrópu – og líkast til um víða veröld – enn hækkuð, talsvert umfram verðlag. Nú virðist svarið við spurningunni liggja fyrir, í fjárlagafrumvarpi ársins 2018. Þar er enn bætt duglega í skattpíningu neytenda þessarar einu neysluvöru; öll áfengisgjöld taka 2,2% verðlagshækkun og áfengisgjald á léttvín hækkar um 10% til viðbótar.

Eins og sést á meðfylgjandi mynd er skatturinn á léttvín sá langhæsti í Evrópu, samkvæmt tölum frá Spirits Europe, hagsmunasamtökum evrópskra áfengisframleiðenda. Í þessum samanburði er miðað við mælieininguna evrur á hektólítra hreins vínanda.

Smellið á myndina til að stækka

Mörg Evrópuríki leggja raunar ekkert áfengisgjald á léttvín eins og sjá má, heldur aðeins virðisaukaskatt. Þrátt fyrir að virðisaukaskattur á áfengi sé lægri hér (11%) en í flestum Evrópuríkjum, er samanlögð skattlagning á áfengi mest hér á landi. Eina undantekningin er að í Noregi er samanlagt áfengisgjald og virðisaukaskattur á bjór lítið eitt hærra en hér á landi, samkvæmt útreikningum FA. Í töflunni hér til hliðar er notuð sama mælieining; evrur á hektólítra hreins vínanda.

Ódýrari vínin hækka hlutfallslega mest
FA hefur jafnframt reiknað út hvað nokkrar algengar léttvínstegundir muni hækka í verði við skattahækkunina sem lögð er til í fjárlagafrumvarpinu. Taka má dæmi af þriggja lítra kassa af rauðvíni með 13,5% áfengisinnihaldi, sem kostar í dag 5.699 krónur. Með hækkun áfengisgjaldsins hækkar kassinn í 6.276 krónur, eða um 10,1%.

Flaska af 14% rauðvíni, sem kostar nú 1.365 krónur í Vínbúðinni, myndi eftir hækkun áfengisgjalds kosta 1.516 krónur. Það er hækkun upp á 151 krónu eða 11,1%.

„Við höfum út af fyrir sig skilning á röksemdum um að jafna áfengisgjald á léttvíni og bjór,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Skattlagning á áfengi er hins vegar orðin svo gjörsamlega fráleit að öll rök standa til þess að lækka þá skattinn á bjór fremur en að hækka hann á léttvíni. Við bendum jafnframt á að vegna þess að áfengisgjaldið er föst krónutala sem leggst á magn hreins vínanda, verður hlutfallsleg hækkun á ódýrari vínum mun meiri en á þeim dýrari. Enn og aftur eru það því þeir sem minnst hafa á milli handa sem verða harðast fyrir barðinu á þessari takmarkalausu skattagleði stjórnvalda.“

Hver ætlar að segja hingað og ekki lengra?
Ólafur vísar til ályktunar stjórnar FA, sem skoraði á Alþingi að endurskoða skattahækkunaráform í fjárlagafrumvarpinu. „Það er kominn tími til að einhver af hinum meintu frjálslyndu þingmönnum í stjórnarliðinu segi einfaldlega hingað og ekki lengra; það er ekki endalaust hægt að hækka skatta á einni neysluvöru,“ segir Ólafur.

Samanburður á áfengisgjöldum í Evrópu – excel-skjal

Nýjar fréttir

Innskráning