Merkingar á hreinsiefnum: Eftir árs bið er svarið nei

04.12.2017

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur synjað beiðni Félags atvinnurekenda um að svigrúm í Evrópureglum verði nýtt og ekki gerð krafa um að vægari hreinsiefni verði merkt á íslensku. Með bréfi dagsettu 29. nóvember berst þannig loks svar við bréfi FA sem sent var ráðuneytinu 6. desember á síðasta ári.

Forsaga málsins er sú að samkvæmt EES-reglum, sem tóku gildi 1. júní síðastliðinn, ber að merkja öll hreinsiefni með varúðarmerkingum á opinberu tungumáli viðkomandi Evrópuríkis. Þetta þýðir að kröfur eru hertar varðandi vægustu efnin, t.d. uppþvottalög og ýmis þvottaefni sem notuð eru á heimilum; til þessa hefur nægt að varúðarmerkingar væru á ensku eða Norðurlandamálum en nýju reglurnar gera kröfu um merkingu á íslensku. Í erindi FA til ráðuneytisins, sem var sent hálfu ári áður en reglurnar áttu að taka gildi, var bent á að þessi breyting þýddi mikinn kostnað og umstang fyrir innflytjendur þessara vara. Umpakka þyrfti vörunum og setja límmiða á íslensku á hvern einasta brúsa, sem væri vinnuaflsfrekt og myndi leiða af sér hækkanir á verði hreinsiefnanna um að minnsta kosti 10-20%.

Jafnframt benti FA á að í Evrópureglunum væri svigrúm til að fara ekki að þeirri kröfu að öll hreinsiefni skyldu merkt með varúðarmerkingum á opinberu tungumáli viðkomandi ríkis. FA gagnrýndi í erindi sínu að hvergi væri vikið að þessum möguleika í hinni íslensku reglugerð sem sett var til innleiðingar Evrópureglunum og skoraði á ráðuneytið að viðkomandi reglugerð yrði tekin til endurskoðunar. Nauðsynlegt væri að taka tillit til smæðar hins innlenda markaðar við innleiðingu ESB-reglugerðarinnar og það svigrúm sem veitt er í reglugerðinni nýtt til þess að ekki yrðu lagðar óþarfa íþyngjandi kvaðir á innflytjendur með tilheyrandi kostnaði.

Umhverfisstofnun veitti umsögn um erindi FA í febrúar síðastliðnum. Í maí ítrekaði félagið erindi sitt til ráðuneytisins, í ljósi þess að þá var stutt í gildistöku reglnanna. Þá fengust þau óformlegu svör að málið væri enn í skoðun, en Umhverfisstofnun myndi ekki framfylgja breyttum reglum fyrr en ráðuneytið hefði tekið afstöðu til erindisins.

Viðurkenna kostnaðarauka
Nú rétt tæpu ári eftir að erindið var sent hefur borist svar frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Í því er vitnað til umsagnar Umhverfisstofnunar frá 17. febrúar síðastliðnum, þar sem ekki er mælt með því að svigrúmið í Evrópureglunum verði nýtt. Í bréfinu segir síðan að ráðuneytið geti fallist á að íslenski markaðurinn sé lítill og því óraunhæft að fá erlenda framleiðendur til að merkja umræddar vörur á íslensku, sem leiði af sér kostnaðarauka fyrir innflytjendur. „Að mati ráðuneytisins nægir sú staðreynd ekki ein og sér til þess að víkja frá meginreglu efnalaga um að merkingar skuli vera á íslensku,“ segir í bréfi ráðuneytisins.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, segir að ákvörðun ráðuneytisins sé vonbrigði fyrir innflytjendur hreinsiefna og vondar fréttir fyrir neytendur. „Okkur hefur þótt að við innleiðingu Evrópureglna væri of lítið tillit tekið til smæðar íslenska markaðarins og það svigrúm nýtt sem oft er í reglunum til að innleiða þær með minna íþyngjandi hætti fyrir íslensk fyrirtæki,“ segir Ólafur. Þá segist hann hissa á því hversu langan tíma það hafi tekið ráðuneytið að svara erindi félagsins. „Það er ekki mjög nútímaleg stjórnsýsla að draga fólk á svari í heilt ár, sérstaklega þegar allar upplýsingar í málinu lágu fyrir um miðjan febrúar.“

Svarbréf umhverfis- og auðlindaráðuneytisins

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning