Pósturinn hindraður í að leysa rekstrarvanda með því að hirða hagræðið af fækkun dreifingardaga

24.01.2018

Félag atvinnurekenda fagnar ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) frá í gær, en þar er Íslandspósti (ÍSP) gert að lækka gjaldskrár sínar til að mæta því hagræði sem fylgja mun áformaðri fækkun dreifingardaga í þéttbýli. Félagið telur augljóst að þarna hafi eftirlitsstofnunin stöðvað Íslandspóst í því að ætla að rétta af taprekstur á þjónustu, sem rekin er í samkeppni við einkafyrirtæki, með því að sækja sér stóraukinn hagnað af einkaréttarþjónustu. Slíkt væri lögbrot, enda kveður 16. grein póstlaga á um að gjaldskrár vegna alþjónustu skuli taka mið af raunkostnaði að viðbættum hæfilegum hagnaði.

Meginniðurstaða ákvörðunar PFS nr. 2/2018 er tvíþætt. Annars vegar er ÍSP heimilað að fækka dreifingardögum í þéttbýli. Hins vegar stöðvar stofnunin fyrirætlanir ÍSP um að halda eftir hagræðinu, sem breytingin hefur í för með sér. ÍSP er gert að leggja fram nýja gjaldskrá, enda á hagræðið að skila sér til notenda þjónustunnar.

Hálfs milljarðs króna hagnaður af einkaréttinum
Í upphaflegri tilkynningu ÍSP um áformaða skerðingu á þjónustu í þéttbýli kom fram að sú aðgerð væri til að bregðast við miklum rekstrarvanda fyrirtækisins: „Þetta hefur jafnframt haft töluverð áhrif á rekstrarafkomu Íslandspósts sem hefur verið óásættanleg á síðustu árum en nauðsynlegur árlegur hagnaður til að standa undir skuldbindingum og endurnýjun rekstrarfjármuna er um [fjarlægt vegna trúnaðar] en töluvert hefur vantað upp á það á síðustu árum.“

Póstmarkaðurinn, eitt af aðildarfyrirtækjum FA, skilaði inn athugasemdum við beiðni Íslandspósts um fækkun dreifingardaga. Á bls. 5 í ákvörðun PFS segir: „PM [Póstmarkaðurinn ehf.] fái ekki annað ráðið af tilkynningunni en að stjórnendur ÍSP ætli að ráðstafa því hagræði sem næst fram með fækkun dreifingardaga innan einkaréttarstarfsemi fyrirtækisins til niðurgreiðslu á samkeppnisrekstri. […] Jafnframt vísa[r] PM til ársreiknings ÍSP þar sem birt er yfirlit yfir afkomu starfsþátta, en samkvæmt því yfirliti er hagnaður af einkarétti sagður um hálfur milljarður sem að mati PM getur seint talist óásættanleg rekstrarafkoma. Það hafi því enga þýðingu fyrir ÍSP að vísa til rekstrarafkomu samstæðunnar enda einkaréttinum ekki ætlað að standa undir öllum kostnaði og fjárfestingum fyrirtækisins á samkeppnishlið starfseminnar þ.m.t. taprekstri.“

Ekki stóð til að láta notendur njóta hagræðisins
Á bls. 8 kemur fram að PFS hafi kallað eftir viðbótarupplýsingum frá ÍSP m.a. tengt gjaldskrá: „Á fundi, þann 19 desember 2017, kallaði PFS eftir tilteknum upplýsingum í tengslum við þær breytingar sem ÍSP áætlaði að gera. Í fyrsta lagi lýsingu og rökstuðningi fyrir tekju og magnbreytingum. Í öðru lagi var óskað eftir nánari upplýsingum um hvort til stæði að breyta gjaldskrá eða afsláttum áður en breytingin tæki gildi.“

Í svari ÍSP sem birt er á bls. 9 í ákvörðuninni kemur skýrt fram að ekki eigi að breyta gjaldskrá: „Ekki er gert ráð fyrir neinum verðbreytingum né breytingum á afsláttarskilyrðum vegna fækkunar dreifingardaga fyrir utan það að verð á öllum bréfum undir 50 g mun vera [það] sem í dag er verð B pósts.“ Með þessu er staðfestir ÍSP, að mati Félags atvinnurekenda, að fyrirtækið hafi ekki í hyggju að skila hagræðinu til notenda þjónustunnar, líkt og lögin gera ráð fyrir.

Rekstrarvandi ÍSP er ekki vegna alþjónustuskyldna
Á bls. 15 í ákvörðuninni fjallar PFS um verðlagningu þjónustu innan einkaréttar: „Gjaldskrá innan alþjónustu skal taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna að viðbættum hæfilegum hagnaði, sbr. 4. mgr. 16. gr. laga um póstþjónustu. Einkaréttur er innan alþjónustu og í 6. mgr. 16. gr. er kveðið á um að PFS skuli samþykkja gjaldskrár innan einkaréttar […] Vegna sjónarmiða sem fram komu í samráði PFS um rekstrarafkomu ÍSP innan einkaréttar  [þ]ykir PFS rétt að taka fram að stofnunin lítur svo [á] að ÍSP hafi fengið magnminnkun innan einkaréttar að fullu bætt[a] í gegnum gjaldskrárbreytingar á undanförnum árum. Rekstrarafkoma einkaréttar hefur þannig verið vel viðunandi, en einkaréttinum er m.a. ætlað að standa undir þeim alþjónustuskyldum sem hvílt hafa á fyrirtækinu, sbr. 2. málsl. 6. mgr. 16. gr. laga um póstþjónustu.“

Á bls. 16 segir: „Ekki verður annað séð en tilgangurinn með þeim breytingum sem nú hefur verið tilkynnt um sé að draga úr kostnaði við dreifingu póstsendinga innan alþjónustu, þ.m.t. innan einkaréttar til að koma til móts við síhækkandi einingarkostnað vegna þess samdráttar sem verið hefur í eftirspurn eftir þjónustunni.“

Ljósmynd: Arnaldur Halldórsson

Á bls. 17 segir: „PFS vill þó taka fram, vegna ummæla í tilkynningu ÍSP um fækkun dreifingardaga sem lúta að rekstrarafkomu fyrirtækisins í tengslum við þá alþjónustuskyldu sem í dag hvílir á fyrirtækinu, að stofnunin lítur svo á að ÍSP hafi, í gegnum tíðina, verið bætt upp að fullu í gegnum gjaldskrá félagsins innan einkaréttar allan þann viðbótarkostnað sem félagið hefur haft af því að veita alþjónustu, þ.m.t. dreifingu alla virka daga. Að mati PFS eru því möguleg vandamál í tengslum við afkomu fyrirtækisins ekki tilkomin vegna þeirra skyldna sem hvílt hafa á fyrirtækinu vegna alþjónustu á undanförnum árum, sbr. til hliðsjónar ákvörðun PFS nr. 17/2015. Sjá einnig yfirlýsingar PFS um bókhaldslegan aðskilnað ÍSP.“

Þetta er í samræmi við það sem Félag atvinnurekenda hefur ítrekað bent á; að gjaldskrár ÍSP vegna einkaréttar hafa hækkað um tugi prósenta á undanförnum árum og afkoma af einkaréttinum verið ágæt, en í samkeppnisþjónustu hefur Pósturinn komist upp með að hækka gjaldskrár lítið sem ekkert. Flest bendir því til að hagnaður af einkaréttinum sé nýttur til að niðurgreiða samkeppnisreksturinn, sem er brot jafnt á póst- og samkeppnislögum.

Póstinum gert að endurskoða gjaldskrá
Á bls. 19 fjallar PFS um endurskoðun gjaldskár innan einkaréttar: „Í svörum ÍSP kemur fram að ekki verði gerðar breytingar á gjaldskrá innan einkaréttar, né afsláttarskilyrðum vegna fækkunar dreifingardaga. Tiltekur fyrirtækið að eftir breytinguna muni verð á öllum bréfum undir 50 g vera það sama og í dag er fyrir B-póst.“ Á bls: 20 segir síðan: „PFS telur að það hagræði sem ÍSP telur að verði við breytingarnar eigi að skila sér til þeirra notenda þjónustunnar sem við á hverju sinni.“ Í ákvörðunarorðum á bls. 21 segir: „Vegna fækkunar dreifingardaga skal Íslandspóstur ohf. endurskoða gjaldskrá innan einkaréttar eigi síðar en 1. júní 2018.“

Tímabært að stöðva óráðsíuna
„Ekki verður annað séð en að Íslandspóstur verði að leita annarra leiða en að skerða þjónustu einkaréttar til að bregðast við rekstrarvanda á samkeppnishliðinni. Sá mikli rekstrarvandi sem Íslandspóstur lýsti í tilkynningu sinni í nóvember verður áfram til staðar eftir að fækkun dreifingardaga tekur gildi. Hann er að 0kkar mati fyrst og fremst tilkominn vegna rangra ákvarðana um samkeppnisrekstur. Það er kominn tími til að óráðsían í rekstri Íslandspósts verði stöðvuð,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.

 

Nýjar fréttir

Innskráning