Fjórfrelsið í uppnámi?

26.04.2018

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptablaðinu 26. apríl 2018.

Evrópusambandið er mikilvægasti markaður íslenzkra fyrirtækja. EES-samningurinn tryggir þeim hindrunarlausan aðgang að 500 milljóna manna heimamarkaði.

Það eru lykilhagsmunir íslenzks atvinnulífs að viðhalda frjálsum viðskiptum við ESB. Til þess þarf að tryggja hnökralausan rekstur EES-samningsins og að jafnframt sé staðið við aðra viðskiptasamninga við Evrópusambandið.

Undanfarið hefur verið rætt hvort endurskoða þurfi EES vegna svokallaðs þriðja orkupakka ESB, sem taka ber upp í samninginn. Það er rétt hjá Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur iðnaðarráðherra að það hefur enn ekki gerzt að eitthvert EFTA-ríkjanna hafni nýjum EES-reglum – en slíkt myndi setja samninginn í uppnám – og orkupakkinn, sem mun hafa óveruleg áhrif á íslenzka hagsmuni, gefur ekki tilefni til slíks.

Aðrar og nærtækari ógnir steðja hins vegar að frjálsum og hindrunarlausum viðskiptum íslenzkra fyrirtækja á Evrópumarkaðnum.

Í fyrsta lagi stendur Ísland sig verst allra EES-ríkja í að innleiða EES-reglur á réttum tíma og tryggja þannig einsleitt efnahagssvæði. Þetta skerðir réttaröryggi borgara og fyrirtækja.

Í öðru lagi eru uppi kröfur um að Ísland brjóti EES-samninginn og fari ekki að dómi EFTA-dómstólsins um ólögmæti banns við innflutningi ferskra búvara. Hér eru miklir hagsmunir í húfi. Það gleymist stundum að samið var um frjálsan innflutning þessara vara vegna þess að búið var að semja um að sambærilegar reglur giltu á EES um viðskipti með sjávarafurðir, sem er gífurlegt hagsmunamál íslenzkra útflytjenda.

Í þriðja lagi eru öflugir hagsmunaaðilar mótfallnir tvíhliða samningi Íslands og ESB um lækkun tolla á búvörum, sem tekur gildi um næstu mánaðamót. Búnaðarþing ályktaði beinlínis að þeim samningi skyldi segja upp.

Þessi staða verður til umræðu á málþingi sem haldið verður í tengslum við stofnfund Íslensk-evrópska viðskiptaráðsins 16. maí, en til þess er stofnað til að setja fókus á þessi mikilvægu hagsmunamál íslenzkra fyrirtækja.

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning