Litlar breytingar á útboðsgjaldi þótt tollkvótar stækki

03.05.2018

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið birti í gær niðurstöður útboðs á tollkvótum, sem tóku gildi 1. maí vegna tvíhliða tollasamnings við Evrópusambandið. Þrátt fyrir að tollkvótar stækki verulega vegna samningsins verða í flestum tilvikum óverulegar breytingar á því meðalverði sem innflutningsfyrirtæki þurfa að greiða fyrir kvótana. Útboðsgjaldið er með öðrum orðum áfram hátt og hefur áhrif á verð varanna sem um ræðir til hækkunar.

Úthlutað er rúmlega 99 tonna kvóta fyrir nautakjöt. Þar greiða fyrirtækin 799 krónur á kíló að meðaltali í útboðsgjald, en greiddu í síðasta útboði, í upphafi ársins, 797 krónur. Lítil breyting er líka á útboðsgjaldi fyrir alifuglakjöt; það hefur undanfarin ár legið í rúmlega 600 krónum og hefur í raun náð jafnvægi við kostnað innflytjenda af að flytja kjötið inn á fullum tolli frá ESB-ríkjum. Sömu sögu er að segja af útboðsgjaldi fyrir pylsur, sem var 467 krónur á kíló í síðasta útboði en lækkar nú í 451 krónu.

Útboðsgjald fyrir þurrkaðar og reyktar skinkur á borð við Parma og Serrano hækkar lítið eitt frá síðasta útboði. Mesta hækkunin er hins vegar á útboðsgjaldi fyrir ost, sem fer úr 765 krónum á kíló í 816, en það er hækkun upp á 6,7%.

Gjaldið sem innflytjendur þurfa að greiða fyrir að fá að flytja inn kíló af svínakjöti án tolla lækkar úr 378 krónum í 343, eða um 9%. Mesta lækkunin er hins vegar á útboðsgjaldi fyrir eldaða kjötvöru; það fer úr 938 krónum á kíló í 588 krónur, en það er lækkun upp á 37,3%. Líklegt má telja að sú lækkun sé til komin vegna aukinnar vöruþróunar hjá innlendum framleiðendum, sem hafa að undanförnu boðið meira úrval af eldaðri kjötvöru sem hentar ekki síst veitingahúsamarkaði.

Smellið á myndina til að stækka hana

Í flestum flokkum búvöru var eftirspurnin eftir hinum nýju tollkvótum margföld. Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að útkoma útboðsins sýni að hinir nýju tollkvótar fullnægi engan veginn eftirspurn eftir innfluttum búvörum. „Undanfarin ár höfum við séð stöðugar og miklar hækkanir á útboðsgjaldinu. Nú breytist sú mynd lítið eitt eins og eðlilegt er þegar mikið bætist við árlega tollkvóta. Til lengri tíma litið er hins vegar líklegt að útboðsgjaldið haldi áfram að hækka og höggvi þannig í ávinning neytenda af hinum tollfrjálsa innflutningi,“ segir Ólafur.

820 milljónir bætast við innkaupsverðið
Samtals greiða innflytjendur rétt tæplega 400 milljónir króna fyrir nýju tollkvótana sem bætast við á árinu vegna samningsins við ESB. Það bætist þá við 420 milljónir sem greiddar voru í útboðsgjald í síðasta útboði. „Þetta eru 820 milljónir sem myndu ekki bætast við innkaupsverð vörunnar ef tollkvótunum væri úthlutað með öðrum hætti,“ segir Ólafur.

Félag atvinnurekenda hefur lengi gagnrýnt það fyrirkomulag að bjóða upp tollkvótana og hækka þannig verðið á hinni innfluttu vöru. „Það skýtur skökku við að stjórnvöld semji við önnur ríki um að fella niður einn skatt af vöru, innflutningstollinn, og leggi svo á hana annan skatt sem er útboðsgjaldið. Þetta kerfi hefur gengið sér til húðar og er löngu tímabært að hugsa það upp á nýtt,“ segir Ólafur. FA hefur bent á aðrar leiðir til að úthluta tollkvótum og fengið hagfræðinga til að semja skýrslu um þá kosti sem í boði eru.

Í undanförnum þremur útboðum á tollkvóta hefur kvóta fyrir svokallaða sérosta, þ.e. sem njóta verndar tegundarheitis vegna uppruna eða landsvæðis (t.d. Parmesan). Þeim er úthlutað með hlutkesti og fær hver umsækjandi í mesta lagi 15% af kvótanum. Þessi breyting var gerð við afgreiðslu breytinga á búvörulögum vegna búvörusamninganna í tíð þarsíðustu ríkisstjórnar og kom inn í lögin að tillögu þáverandi meirihluta atvinnuveganefndar Alþingis, sem taldi osta af þessu tagi ekki vera í samkeppni við innlenda framleiðslu. Ólafur bendir á að þessi breyting sýni að hægt sé að úthluta tollkvóta með öðrum aðferðum en útboði og grundvöllur hljóti að vera fyrir umræðu um breytingar á núverandi fyrirkomulagi.

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning