Notið orkuna í annað

17.04.2019

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Viðskiptablaðinu 17. apríl 2018. 

Kjör Trumps, Brexit, uppgangur lýðskrumsflokka – allt eru þetta greinar af sama meiði. Eftir efnahagshrunið 2008 er frjórri jarðvegur en áður á Vesturlöndum fyrir prédikara sem kenna frjálsum viðskiptum og alþjóðasamstarfi – eða bara útlendingum – um ófarir sínar og annarra. Þeir búa gjarnan til ósannar sögur af óvinum fólksins til að geta sjálfir brugðið sér í líki bjargvættarins.

Umræðan um þriðja orkupakkann er bezta dæmið um slíkt lýðskrum á Íslandi. Evrópusambandið mun öðlast yfirráð yfir auðlindum Íslands; við verðum skylduð til að leggja sæstreng; við neyðumst til að einkavæða Landsvirkjun; utanríkisráðherrann felur að hann muni í rauninni græða stórfé á sæstreng – hugkvæmninni í bullinu virðast lítil takmörk sett.

Sannleikurinn er að orkupakkinn bætir litlu við þá stóru breytingu, aukið markaðsfrelsi og samkeppni á orkumarkaði, sem er löngu orðin og hefur verið bæði atvinnulífi og almenningi á Íslandi til góðs. Þriðji orkupakkinn felur fyrst og fremst í sér bætta vernd fyrir neytendur á orkumarkaði.

Þeir sem hamast gegn orkupakkanum hafa annað og oft illa dulbúið markmið; að grafa undan aðild Íslands að EES-samningnum. Orkupakkinn felur í sér minniháttar breytingar, en að hafna honum myndi marka meiriháttar stefnubreytingu af Íslands hálfu og setja aðild okkar að EES í uppnám. Það er einmitt það sem andstæðingar orkupakkans vilja.

Á 25 ára afmæli EES-samningsins hafa margir orðið til að vekja athygli á þeim gífurlegu framförum og hagsbótum, sem leitt hafa af aðild Íslands að samningnum. Hann hefur stuðlað að því að gera íslenzkt atvinnulíf alþjóðlegra og samkeppnishæfara og tryggt aðgang íslenzkra fyrirtækja að stærsta markaðssvæði heims. Þeir mörgu sem vilja varðveita þennan árangur verða að svara þeim litla en háværa hópi sem vill grafa undan honum með ósannindum. Hvetjum þau til að nota orkuna í annað.

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning