Ríkistalan er sú rétta

01.08.2019

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Viðskiptablaðinu 1. ágúst 2019.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra er áhugasöm um að koma á sykurskatti. Hún viðraði þau áform fyrst í fyrrasumar og vitnaði til tillagna Landlæknisembættisins um gosskatt. Í þeim var fullyrt að þriðjungur neyzlu Íslendinga á viðbættum sykri (34%) kæmi úr gos- og svaladrykkjum.

Félag atvinnurekenda skrifaði ráðherra og benti á að tala Landlæknis virtist byggð á rangri túlkun á 7-8 ára gömlum gögnum Hagstofunnar. Önnur og áreiðanlegri gögn sýndu að innan við fimmtungur sykurneyzlu kæmi úr gosdrykkjum. Félagið benti á það sem ætti að vera frekar augljóst; að mikilvægar ákvarðanir þyrftu að byggjast á réttum gögnum, en Landlæknir hefði því miður ekki sýnt áhuga á samtali við hagsmunaaðila um að tryggja rétt gögn. Bréfi FA var ekki svarað.

Í sumar opinberaði ráðherrann nýjar og víðtækari tillögur um sykurskatt og endurtók í blaðagrein hina röngu tölu. FA skrifaði ráðherranum nýtt bréf og lýsti furðu á að hún skyldi ítrekað taka upp opinberlega tölur sem henni hefði verið bent á að væru bæði úreltar og rangar. FA benti á að í nýrri áætlun Landlæknis um aðgerðir til að draga úr sykurneyzlu væri enginn hlekkur á útreikninga að baki tölunni. Félagið fór fram á að ráðuneytið afhenti félaginu þau gögn og útreikninga, sem lægju að baki fullyrðingu ráðherrans. Það bauð sömuleiðis fram samráð og samtal um hvernig mætti tryggja að gögnin væru rétt.

Svarið barst nýlega: „Byggja tilvitnaðar fullyrðingar ráðherra á upplýsingum sem fram koma í umræddri aðgerðaáætlun og ítarefni hennar.“ Ekki var tekið undir tilboð um samstarf um að hafa gögnin rétt.

Þetta er sem sagt málið: Ráðherrann gerir tillögur um nýja skatta, byggðar á röngum tölum. Áhugi hennar á að byggja ákvarðanir sínar á réttum upplýsingum er enginn. Er von á góðu?

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning