„Endahnútur“ Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptablaðinu 10. október 2019.
Fyrrverandi landbúnaðarráðherra skrifaði tilfinningaþrungna grein í blað, þar sem hann bað umhverfisráðherrann um að reikna út kolefnissporið af innflutningi lambahryggja frá Nýja Sjálandi. Hagfræðiprófessor varð fyrri til svars. Niðurstaða hans var að kolefnisspor íslenzks lambakjöts væri stærra en innflutningsins, þrátt fyrir flutning síðarnefndu vörunnar um langan veg. Miðaði hagfræðingurinn þó við útreikninga á kolefnisspori íslenzks lambakjöts sem taka hvorki inn í myndina losun gróðurhúsalofttegunda vegna framræslu votlendis fyrir tún og beitarlönd né gróðureyðingar á afrétti vegna beitar. Losun vegna framræslu er talin drjúgur meirihluti allar losunar Íslands.
Ekki stóð á viðbrögðum, til dæmis á samfélagsmiðlum, þar sem hagfræðingurinn var kallaður trúður, áróðursmaður, óvinur bænda og ýmislegt verra. Ráðherrann fyrrverandi skrifaði nýja grein og kallaði fræðimanninn andstæðing landbúnaðarins og falsspámann. Hvorki hann né aðrir sem dembdu sér yfir hagfræðinginn gátu þó bent á útreikninga, gögn eða upplýsingar sem sýndu að hann hefði rangt fyrir sér.
Ýmsir þeir, sem vilja vernda landbúnaðinn fyrir erlendri samkeppni, hafa tekið umræðunni um vernd loftslagsins fagnandi, af því að þeir telja sig geta sótt þangað röksemdir fyrir því að hefta innflutning á mat. Þeim hættir þó til að gleyma að meirihluti kolefnisspors margra vara á sér uppsprettu í framleiðsluferlinu fremur en flutningaferlinu. Það gleymist líka oft að jafnvel þótt bara sé horft á flutninga milli landa, þarf að flytja inn t.d. fóður, áburð, vélar og eldsneyti svo hægt sé að framleiða mat á Íslandi.
Það er eðlilegt og nauðsynlegt að taka umræðuna um kolefnisspor matvöru. En það þarf þá að gerast á grundvelli upplýsinga og staðreynda en ekki innantómra upphrópana. Og það er afleitur útgangspunktur að gefa sér án umræðu eða gagna að kolefnisspor innlendu vörunnar hljóti alltaf að vera minna en þeirrar innfluttu. Þá er tilgangurinn einhver annar en að stuðla að verndun loftslagsins.