FA býður fram fulltrúa í rafrettuhóp ráðherra

15.10.2019
Lög um rafrettur banna sölu þeirra og tengdra vara til barna yngri en 18 ára. Félagsmenn FA hafa framfylgt slíku banni, fyrst að eigin frumkvæði áður en lögin tóku gildi fyrr á árinu.

Félag atvinnurekenda hefur sent Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra erindi og boðið fram fulltrúa í starfshóp, sem ráðherra upplýsti um helgina að hún hygðist skipa til að hamla gegn notkun ungmenna á rafrettum og tengdum varningi. Ráðherra upplýsti að í starfshópnum ættu að sitja fulltrúar heilbrigðisráðuneytisins, embættis landlæknis, Neytendastofu og umboðsmanns barna.

FA rifjar í bréfinu upp að félagið og innflytjendur og seljendur rafrettna, sem eiga aðild að FA, hafa lýst yfir vilja til samstarfs til að tryggja eftirlit og framfylgni laga um rafrettur til að stemma stigu við notkun ungmenna á slíkum vörum. FA vísar um það efni til bréfs FA til ráðuneytisins dags. 2. október sl. og tölvupósts hóps rafrettuverslana til ráðuneytisins 7. október sl. Engin svör hafa borist frá ráðuneytinu við þeim erindum.

Starfsmenn verslana lykilfólk í að framfylgja lögunum
„Að mati félagsins eru seljendur rafrettna mikilvægur aðili í baráttunni gegn notkun ungmenna á rafrettum og því mikilvægt að samráð sé á milli stjórnvalda og söluaðila,“ segir í bréfi FA til ráðherra. „Með fullri virðingu fyrir þekkingu og yfirsýn embættismanna leyfir félagið sér að benda á að starfsfólk rafrettuverslana er lykilfólk í því að framfylgja ákvæðum laganna um bann við sölu til ungmenna og býr jafnframt yfir yfirburðaþekkingu á markaðnum, eftirspurn ungmenna eftir vörunum og tilraunum til að komast framhjá ákvæðum laganna um aldursmörk og öryggisatriði.“

„Að mati FA er nauðsynlegt að í starfshópi ráðherra sé sem breiðust þekking og reynsla, auk þess sem samstarf aðila beggja megin borðs muni auka mjög líkur á að tillögur starfshópsins skili tilætluðum árangri; að stemma stigu við  notkun ungmenna á rafrettum og tengdum vörum. Félag atvinnurekenda ítrekar því boð sitt og félagsmanna um samstarf við ráðuneytið og býður fram fulltrúa í starfshóp ráðherra,“ segir í niðurlagi bréfsins.

Bréf FA til heilbrigðisráðherra

Nýjar fréttir

Innskráning