Sveitarfélögin haldi hækkun fasteignagjalda undir 2,5%

21.11.2019

Félag atvinnurekenda, Húseigendafélagið og Landssamband eldri borgara hafa samþykkt eftirfarandi ályktun: 

„Félag atvinnurekenda, Húseigendafélagið og Landssamband eldri borgara ítreka áskorun sína frá 25. október til sveitarfélaganna að lækka álagningarprósentu fasteignagjalda á bæði íbúðar- og atvinnuhúsnæði.

Fjárhagsáætlanagerð sveitarfélaganna stendur nú sem hæst og hafa 12 stærstu sveitarfélög landsins, þar sem tæplega 82% landsmanna búa, kynnt frumvörp til fjárhagsáætlana fyrir árið 2020. Af þessum tólf sveitarfélögum lækka sjö álagningarprósentu fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði og sex lækka skatthlutfallið á atvinnuhúsnæði, eins og sjá má í meðfylgjandi töflu.

Samtökin fagna því að sum sveitarfélög lækka álagningarprósentur, en vekja jafnframt athygli á því að fæst lækka þau álagninguna nógu mikið til að tekjur þeirra af fasteignagjöldum hækki ekki um meira en 2,5%. Akranes, Reykjanesbær og Vestmannaeyjar eru einu sveitarfélögin sem falla í þann flokk með umtalsverðum lækkunum á skatthlutfallinu.

FA, Húseigendafélagið og LEB taka undir málflutning Alþýðusambands Íslands, sem hefur minnt sveitarfélögin á yfirlýsingu Sambands íslenskra sveitarfélaga sem gefin var til að greiða fyrir kjarasamningum á almennum vinnumarkaði síðastliðið vor. Í yfirlýsingunni beindi sambandið þeim tilmælum til sveitarfélaganna að gjöld á þeirra vegum hækki ekki umfram 2,5% á árinu 2020.

Geta ekki hlaupist undan ábyrgð á verðstöðugleika
Samtökin þrenn eru sammála um að sveitarfélögin geti ekki hlaupist undan ábyrgð á því að viðhalda verðstöðugleika í landinu og varðveita þann árangur sem náðist í kjarasamningunum. Hækkun fasteignagjalda á íbúðarhúsnæði vegna hærra fasteignamats kemur beint niður á öllum almenningi í landinu, ýmist með því að fólk þarf að greiða hærri gjöld af eignum sínum eða hærri leigu fyrir leiguhúsnæði. Hækkun fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði knýr fyrirtækin til að hækka verð á vörum og þjónustu, sem einnig bitnar á öllum almenningi.

FA, Húseigendafélagið og Landssamband eldri borgara skora á sveitarfélögin að gera það sem gera þarf áður en fjárhagsáætlanir eru endanlega samþykktar til að tryggja að fasteignagjöld hækki ekki um meira en 2,5%.“

 

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning