Breytum innheimtu fasteignaskatta

11.12.2019

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Markaðnum, viðskiptablaði Fréttablaðsins, 11. desember 2019. 

Velflest stærstu sveitarfélögin hafa nú afgreitt fjárhagsáætlun fyrir árið 2020. Félag atvinnurekenda tók í haust höndum saman við Húseigendafélagið og Landssamband eldri borgara um að skora á sveitarfélögin að lækka álagningarprósentu fasteignaskatts, jafnt á íbúðar- og atvinnuhúsnæði. Alþýðusambandið hefur sömuleiðis verið drjúgt í að minna sveitarfélögin á yfirlýsingu Sambands íslenzkra sveitarfélaga, sem gefin var til að greiða fyrir kjarasamningunum í vor. Þar var mælzt til þess að sveitarfélögin hækkuðu ekki gjaldskrár meira en um 2,5%, til að axla ásamt öðrum ábyrgð á stöðugleika í verðlagi og að varðveita árangur kjarasamninganna.

Fréttirnar úr fjárhagsáætlanagerðinni benda til að þessi tilmæli og áskoranir hafi verið tekin hæfilega hátíðlega þegar kom að fasteignasköttum. Málflutningur áðurgreindra samtaka hefur vissulega skilað þeim árangri að af tólf stærstu sveitarfélögunum hafa átta ákveðið að lækka álagningarprósentu fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði, en sjö lækka skatt á atvinnuhúsnæði. Það vekur hins vegar athygli að vegna hækkana fasteignamats hækka skattgreiðslur jafnt íbúðareigenda sem eigenda atvinnuhúsnæðis víðast hvar þrátt fyrir lækkun álagningarprósentunnar, í mörgum tilvikum talsvert meira en um þau 2,5% sem miðað var við í yfirlýsingu Sambands íslenzkra sveitarfélaga.

Náum því í fasteignunum sem tapaðist í sundlauginni
Ýmis sveitarfélög hafa haldið því fram að tilmælin hafi alls ekki átt við um skattgreiðslur, heldur bara aðrar gjaldskrár. Um það má hafa orð Alþýðusambandsins: „Fasteignaskattar eru meðal þeirra útgjaldaliða sem fasteignagjöld samanstanda af og falla þeir því að sjálfsögðu undir gjaldskrár sveitarfélaga sem eru ákvarðaðar á ári hverju, rétt eins og leikskólagjöld og önnur gjöld. Fasteignagjöld, þ.m.t. fasteignaskattar, vega í mörgum tilfellum þungt í útgjöldum heimilanna og ljóst er að það dugar skammt að halda aftur af hækkunum á aðgangseyri ofan í sundlaugar ef hækka á fasteignaskatta á sama tíma.“

Það vekur líka athygli að í sveitarfélögum, þar sem breytingar hafa verið gerðar á skattprósentunni, er víða komið meira til móts við eigendur íbúðarhúsnæðis en við fyrirtækin. Þannig hækkar fasteignaskattur af atvinnuhúsnæði í Kópavogi og Mosfellsbæ meira en tvöfalt meira en af íbúðarhúsnæði og í Garðabæ er munurinn ríflega þrefaldur. Kannski finnst stjórnendum sveitarfélaganna í lagi að láta fyrirtækin bera svolítið þyngri byrðar en heimilin. Á endanum bitnar það auðvitað á heimilunum, því að þegar slíkar álögur bætast við aukinn launakostnað gefur auga leið að fyrirtækin eiga erfiðara með að halda óbreyttu verði á vörum og þjónustu.

Stærsta sveitarfélagið hleypst undan merkjum
Sum sveitarfélög halda sig innan marka. Þannig verða hækkanir fasteignaskatta í Vestmannaeyjum mjög nálægt 2,5% markinu og á Akranesi verður raunlækkun á skattbyrði af atvinnuhúsnæði, en þar hefur bærinn markað þá stefnu að laða að sér fyrirtæki. Það stingur hins vegar í augu hvernig stjórnendur stærsta sveitarfélagsins, þar sem meirihluti alls verzlunar- og skrifstofuhúsnæðis í landinu er staðsettur, láta eins og þeir heyri ekki raddir víða úr samfélaginu sem skora á sveitarfélögin að sýna ábyrgð. Reykjavíkurborg heldur fasteignasköttum óbreyttum og er nú eina sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu sem innheimtir hæstu lögleyfðu prósentu fasteignaskatta af atvinnuhúsnæði. Á næsta ári munu skattgreiðslur fyrirtækja í Reykjavík vegna húsnæðis hækka um 4,7%, en hafa hækkað um samtals 73,3% frá upphafi síðasta kjörtímabils.

Breytum kerfinu
Þróun fasteignaskatta á undanförnum árum er þannig úr takti við allar skynsamlegar viðmiðanir. Það sjónarmið á vaxandi fylgi að fagna að breyta verði þessu kerfi þar sem skattstofninn fylgir sveiflum í verði húsnæðis, algjörlega úr takti við annað efnahagsástand eða kostnað við þá þjónustu sem sveitarfélögin veita. Önnur ástæða fyrir breytingum er að skattheimtan uppfyllir ekki það einfalda skilyrði að vera gegnsæ eða að skattgreiðandinn geti séð fyrir hvað hann muni þurfa að greiða í skatt. Stjórnmálamenn, bæði á Alþingi og í sveitarstjórnum, þurfa að fara að ræða saman um skynsamlegra kerfi.

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning