Fyrirtækin mun ánægðari með aðgerðir ríkisins en sveitarfélaga

08.04.2020

Mikill munur er á afstöðu félagsmanna Félags atvinnurekenda til aðgerða ríkisins til stuðnings fyrirtækjum vegna heimsfaraldurs COVID-19 veirunnar og til aðgerða sveitarfélaganna í sama skyni. Fyrirtækin eru mun ánægðari með aðgerðir ríkisins. Þetta er á meðal niðurstaðna könnunar, sem FA gerði á meðal félagsmanna sinna og lauk í dag. Fyrirtækin hafa orðið fyrir miklum neikvæðum áhrifum af heimsfaraldrinum en stjórnendur þeirra eru engu að síður bjartsýnir á að þau komist í gegnum erfiðleikana.

Af þeim sem svöruðu spurningunni „Hversu ánægð(ur) ertu með aðgerðir ríkisins (ríkisstjórnar og Alþingis) til að bregðast við efnahagslegum áhrifum faraldursins og aðstoða fyrirtæki?“ sögðust 16% vera mjög ánægðir með aðgerðirnar og 48% til viðbótar sögðust ánægðir, samtals 64%. Hins vegar sögðust 11% óánægðir eða mjög óánægðir með aðgerðir ríkisvaldsins.

Við allt annan tón kvað þegar spurt var „Hversu ánægð(ur) ertu með aðgerðir sveitarfélaganna til að bregðast við efnahagslegum áhrifum faraldursins og aðstoða fyrirtæki?“ Þá segjast aðeins 2% svarenda mjög ánægðir og 15% ánægðir, en samtals 43% segjast óánægðir eða mjög óánægðir með aðgerðir sveitarfélaganna.

Leggja til niðurfellingu og lækkun á tryggingagjöldum og fasteignasköttum
Er spurt var í opnum spurningum til hvaða nýju aðgerða stjórnvöld gætu gripið lögðu langflestir fyrirtækjastjórnendur til tímabundna niðurfellingu tryggingagjalds og fasteignaskatts sveitarfélaga á atvinnuhúsnæði og/eða lækkun þessara skatta til frambúðar. Þetta eru hvort tveggja leiðir sem Félag atvinnurekenda hefur lagt til við stjórnvöld að verði farnar.

Könnun FA var netkönnun, gerð dagana 6.-8. apríl. Hún var send til 158 fyrirtækja með beina félagsaðild og svöruðu 75 eða 47,5%. Ekki er hægt að rekja svörin til einstakra svarenda eða fyrirtækja.

Þungt högg fyrir fyrirtækin
Meðal annarra helstu niðurstaðna í könnuninni eru eftirfarandi:

  • Um 80% félagsmanna segja að fyrirtækin verði fyrir tekjufalli á öðrum ársfjórðungi miðað við sama tíma í fyrra. Þriðjungur telur tekjutapið nema meira en 50%.
  • Um 25% fyrirtækjanna hafa sagt upp fólki eftir að heimsfaraldur COVID-19 hófst.
  • 57% fyrirtækjanna hafa nýtt sér hlutabótaleiðina og sett starfsfólk í hlutastarf. Um 20% fyrirtækjanna hafa lækkað starfshlutfall hjá öllu starfsfólki.
  • 24% fyrirtækjanna hyggjast sækja um bætur vegna launagreiðslna til starfsmanna í sóttkví.
  • 62% fyrirtækjanna hyggjast nýta sér að fresta greiðslum opinberra gjalda og skatta.
  • 8% félagsmanna hyggjast sækja um brúarlán hjá fjármálastofnun með ríkisábyrgð að hluta.

Stjórnendur bjartsýnir á að fyrirtækin spjari sig
Þrátt fyrir mikla erfiðleika, sem augljóslega steðja að fyrirtækjunum vegna heimsfaraldursins, eru stjórnendur þeirra flestra bjartsýnir á að þau komist í gegnum erfiðleikana.

Þegar spurt er: „Hversu líklegt telurðu að fyrirtækið þitt komist í gegnum erfiðleikana vegna heimsfaraldursins?“ segjast 39% stjórnenda telja það mjög líklegt og 49% líklegt, eða samtals 88%. Aðeins 3% telja ólíklegt að fyrirtækið spjari sig.

Nærri helmingur ánægður með viðskiptabankann
Spurt var hvort fyrirtækin hefðu leitað til viðskiptabanka síns vegna erfiðleika af völdum heimsfaraldursins og svöruðu 53% því játandi.

Af þeim fyrirtækjum sem sögðust hafa leitað til viðskiptabankans sögðust samtals 46% svarenda ánægðir eða mjög ánægðir með viðbrögð bankans, en um fjórðungur sagðist óánægður eða mjög óánægður með þær móttökur sem hann hefði fengið í bankanum.

 

 

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning