Skatturinn hefur neitað Leiðtogaþjálfun ehf., einkaleyfishafa Dale Carnegie á Íslandi, um lokunarstyrk þrátt fyrir að starfsemi fyrirtækisins hafi verið lokað tímabundið í lok mars vegna fyrirmæla stjórnvalda. Fjallað er um málið í Fréttablaðinu.
Leiðtogaþjálfun sótti í júní sl. um lokunarstyrk samkvæmt lögum nr. 38/2020 um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónaveiru. Starfsemi fyrirtækisins var hætt tímabundið eftir að auglýsing heilbrigðisráðherra nr. 243/2020 var birt 23. mars, en þar kom fram í 3. grein að ekki mættu fleiri en 20 manns koma saman. Þá kom fram í 5. grein að starfsemi og þjónusta sem krefðist mikillar snertingar á milli fólks eða mikillar nálægðar væri óheimil á gildistíma auglýsingarinnar.
Í bréfi frá Skattinum 23. júní var farið fram á rökstuðning fyrir því að starfsemin félli undir framangreindar kröfur. Félag atvinnurekenda sendi fyrir hönd Leiðtogaþjálfunar Skattinum rökstuðning, þar sem m.a. kemur fram að starfsemin feli í sér staðbundna hópþjálfun þar sem einstaklingar koma saman á námskeiðum og vinnustofum. Algengasti fjöldi á slíkum námskeiðum sé 30-35 manns, en getur orðið allt að 50 manns. Æfingum, hópavinnu og vinnustofum fylgir ennfremur mikil nánd. Fyrirtækið mat það því svo að því væri ekki annað fært en að loka starfsemi sinni, bæði með vísan til 3. og 5. greinar auglýsingar ráðherra. Samdráttur í tekjum í aprílmánuði, miðað við síðasta ár, var 84%. Lokunarstyrkur upp á 2,4 milljónir er aðeins brot af því tekjutapi.
Mikilvægt að túlka ekki skilyrði of þröngt
FA áréttaði í bréfinu mikilvægi þeirrar samfélagslegu ábyrgðar sem Leiðtogaþjálfun hefði sýnt með því að loka starfsemi sinni í því skyni að draga úr útbreiðslu veirunnar. Mikilvægt væri því að ákvæði auglýsingarinnar væru ekki túlkuð of þröngt.
Skatturinn tók ákvörðun í málinu sem tilkynnt var Leiðtogaþjálfun með bréfi 23. júlí. Þar segir m.a.: „Í 4. gr. laganna kemur fram að rekstraraðili þurfi að uppfylla öll skilyrði sem sett eru til þess að eiga rétt á lokunarstyrk úr ríkissjóði. Þar af leiðandi kemur ekki til álita að rekstraraðili sem ekki uppfyllir öll skilyrðin eigi rétt á lokunarstyrk úr ríkissjóði. Breytir þar engu um að rekstrarforsendur hafi brostið tímabundið.“
Bæði FA og Leiðtogaþjálfun hafna þessari þröngu túlkun á lögunum. Gera má ráð fyrir að ákvörðun Skattsins verði kærð til yfirskattanefndar.
Í tilkynningu fjármálaráðuneytisins júní kom fram að umsóknir um lokunarstyrki hefðu verið mun færri en búist var við.
Svigrúm til að rýmka skilyrðin
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, segist telja niðurstöðuna í máli Leiðtogaþjálfunar mikið umhugsunarefni. Fyrirtækinu hafi augljóslega verið lokað vegna fyrirmæla stjórnvalda í áðurnefndri auglýsingu og hefði verið mikill ábyrgðarhluti að halda rekstrinum áfram. „Ef Skatturinn heldur sig við þrönga túlkun á lögunum um stuðning við minni rekstraraðila, þarf Alþingi að endurskoða lögin þannig að þau nái með skýrum hætti yfir öll fyrirtæki, sem sannarlega neyddust til að hætta rekstri vegna fyrirmæla stjórnvalda. Vegna fárra umsókna um lokunarstyrki er augljóslega svigrúm til að rýmka skilyrðin fyrir greiðslu þeirra,“ er haft eftir Ólafi í Fréttablaðinu.
Réttarstaðan þarf að vera á hreinu
Ólafur bendir í viðtali við á að FA hafi kallað eftir því að stjórnvöld greini hið fyrsta frá því hvort og þá hvernig þau hyggist koma til móts við fyrirtæki sem neyðast til að hætta starfsemi eða takmarka hana nú þegar önnur bylgja faraldursins er hafin. „Það er mikilvægt að þá sé réttarstaðan á hreinu, því að skýrar línur um stuðning við fyrirtæki styðja þá við aðgerðir almannavarna og heilbrigðisyfirvalda og auðvelda fyrirtækjum að sýna samfélagslega ábyrgð og grípa til ráðstafana til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar.“