Fröllur og frjálst snakk

24.09.2020

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptablaðinu 24. september 2020.

Lítill hluti íslenzks atvinnulífs býr enn við verndartolla. Þar er fyrst og fremst um landbúnað að ræða, en sum iðnaðarframleiðsla er enn tollvernduð og það ekki með neinum smáræðis tolli, heldur upp á 76%, sem er Íslandsmet í hlutfallslegri skattheimtu.

Hér er átt við toll á franskar kartöflur. Um 95% neyzlu íslenzkra heimila á þeim eru innfluttar vörur, sem bera þennan fáránlega háa toll – nema þær komi frá ríkjum Evrópusambandsins eða Kanada, en þá hefur íslenzka ríkið náðarsamlegast fallizt á að tollurinn lækki í 46%.

Eitt innlent fyrirtæki framleiðir franskar og hefur viðurkennt að framleiðslan sé að stórum hluta úr innfluttum kartöflum. Þarna er því ekki verið að vernda íslenzka landbúnaðarframleiðslu heldur eitt iðnfyrirtæki.

Fröllutollurinn er algerlega hliðstæður við 59% toll á snakk, sem var afnuminn í ársbyrjun 2017. Íslenzkt iðnfyrirtæki, sem framleiddi snakk úr innfluttu hráefni, mótmælti afnámi tollsins harðlega. Alþingi ákvað nú samt að fella hann niður. Afleiðingin var sú að um áramótin 2017 lækkaði innflutt snakk í verði um 22-43%. Innlenda framleiðslan fékk vissulega harðari samkeppni, en ekki verður annað séð en að fyrirtækið eina, sem ásamt hagsmunasamtökum sínum tók afnám tollsins nærri sér, sé enn í blómlegum rekstri. Eftir afnám tollsins hafa frumkvöðlar meira að segja sett á stofn nýtt snakkfyrirtæki, sem framleiðir flögur úr íslenzkum kartöflum við góðan orðstír.

Ótti við frjálsa samkeppni er útbreiddur í sumum geirum atvinnulífsins. Stundum hafa innlendir framleiðendur þó tekið aukinni samkeppni af karlmennsku, eins og dæmið af snakkinu sýnir og eins og grænmetisbændur gerðu þegar tollar voru afnumdir af nokkrum grænmetistegundum 2002. Þeir sneru vörn í sókn með vöruþróun og snjallri markaðssetningu og framleiða nú mun meira af viðkomandi tegundum en fyrir afnám tollanna.

Er einhver ástæða til að ætla að afnám fröllutollsins hefði önnur áhrif?

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning