Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Viðskiptamogganum 28. október 2020.
Háir vextir á lánum viðskiptabankanna til fyrirtækja hafa valdið mörgum atvinnurekendum heilabrotum undanfarin misseri. Á sama tíma og Seðlabankinn hefur farið með stýrivexti niður í sögulegt lágmark hefur vaxtaálag bankanna á fyrirtækjalánum hækkað og þótt það hafi mögulega náð toppi í vor eða sumar er það enn hátt í alþjóðlegum samanburði. Margvíslegar aðgerðir Seðlabankans, aðrar en vaxtabreytingar, sem gripið hefur verið til vegna kórónuveirufaraldursins til að rýmka um stöðu bankanna, virðast ekki hafa skilað sér sem skyldi í lægri vöxtum á lánum til fyrirtækja.
Hátt vaxtaálag bankanna á fyrirtækjalánum er almennt vandamál og snýr ekki bara að fyrirtækjum sem eru í vandræðum vegna heimsfaraldursins og búa þannig til áhættu í lánabókum bankanna. Allnokkur dæmi eru um fyrirtæki sem standa vel og hafa jafnvel aldrei gengið betur, en hafa engu að síður mátt þola verulegar hækkanir á vöxtum á lánum sínum undanfarin misseri. Umræðan um drjúgar hækkanir á vaxtaálagi bankanna þrátt fyrir lækkandi stýrivexti hófst fyrir um ári og var orðin hávær á fyrri hluta ársins, áður en nokkur sá fyrir að afleiðingar heimsfaraldursins yrðu jafnalvarlegar og raun ber vitni.
Þrjár ástæður eru líklegar fyrir því að vaxtaálag bankanna hefur farið hækkandi og er hátt í alþjóðlegum samanburði.
Í fyrsta lagi er kostnaður bankakerfisins einfaldlega ennþá of hár, þrátt fyrir fækkun starfsmanna og útibúa undanfarin ár. Rekstrarkostnaður viðskiptabankanna þriggja hefur undanfarin ár verið um 90 milljarðar króna á ári, eða um 3% af landsframleiðslu. Þar af er launakostnaður um helmingur. Því var velt upp í Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið, sem kom út fyrir tveimur árum, hvort aukið samstarf bankanna varðandi innviði og grunnkerfi gæti stuðlað að kostnaðarlækkun. Þar má finna fyrirmynd í undanþágu, sem bankarnir fengu frá samkeppnislögum 2017 til að reka sameiginlegt seðlaver. Á þessu sviði eru áreiðanlega fleiri tækifæri.
Í öðru lagi er alkunna að við stofnun nýju bankanna eftir hrun voru færðar til þeirra eignir úr gömlu bönkunum á virði sem endurspeglaði þá miklu óvissu sem einkenndi innlent efnahagslíf á þeim tíma. Við uppgang efnahagslífsins, einkum ferðaþjónustunnar, á árunum eftir hrun gjörbreyttust efnahagshorfur til hins betra, sem gerði að verkum að ýmsar eignir sem bankarnir höfðu fengið á hrakvirði urðu skyndilega verðmætar. Þessi verðmætaaukning er meginástæða þess að bankarnir skiluðu að meðaltali góðri arðsemi á árunum 2014 og 2015, en uppfærsla á vanmetnum eignum bankanna kláraðist síðan án þess að þeirri grundvallarbreytingu sem skilvirkni kerfisins hefur vantað – kostnaðarhagræðingu – hefði verið náð. Þá virðist hafa verið gripið til þess einfalda ráðs að hækka vaxtaálag til að laga arðsemina.
Í þriðja lagi er fjármálamarkaðurinn á Íslandi fákeppnismarkaður. Hár múr í formi íslenzku krónunnar ver bankana fyrir samkeppni frá alþjóðlegum bönkum, sem dettur ekki í hug að taka þá áhættu sem í því felst að keppa á örmarkaði með sveiflukenndan örgjaldmiðil. Krónumúrinn veitir bönkunum enn skilvirkari vernd fyrir alþjóðlegri samkeppni en einhverjir hæstu tollmúrar heims veita landbúnaðinum. Það eru eingöngu stór fyrirtæki, flest með tekjur í erlendri mynt, sem geta leitað á náðir alþjóðlegs fjármálamarkaðar til að fjármagna sig. Minni og meðalstór fyrirtæki eiga ekki aðra kosti en að skipta við íslenzku bankana. Og af því að þeir fá ekki alvöru samkeppni hafa þeir ekki hvata til að hagræða eins og þarf til að geta boðið fyrirtækjalán á samkeppnishæfu verði.
Seðlabankinn getur vissulega gert meira til að reyna að ýta vöxtum á fyrirtækjalánum niður – og ætti að gera það, burtséð frá stöðunni vegna heimsfaraldursins. En íslenzk fyrirtæki munu ekki fá lán á sambærilegum kjörum og fyrirtæki í nágrannalöndunum nema við ræðum stóru myndina; rekstrarumhverfi innlendra fjármálastofnana og þá samkeppnishvata sem þær hafa.