Borgin gengur of skammt í lækkun fasteignaskatts

19.11.2020
Frá fjarfundi borgarráðs með fulltrúum atvinnulífsins.

Reykjavíkurborg gengur of skammt í lækkun fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði með áformum um lækkun upp á 0,05 prósentustig um áramótin. Þetta var á meðal þess sem fram kom í máli Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, á fjarfundi borgarráðs í morgun en ýmsum fulltrúum atvinnulífsins var boðið til fundar við borgarráð.

Ólafur benti á að há fasteignagjöld væru eitt þeirra mála, sem helst brynnu á félagsmönnum FA, miðað við niðurstöður kannana félagsins. FA hefur sent borgaryfirvöldum í Reykjavík fjölda erinda og áskorana undanfarin ár um að lækka álagningarprósentu fasteignagjalda. Borgin hefur árum saman innheimt hæsta fasteignaskatt af atvinnuhúsnæði sem lög leyfa, eða 1,65% af fasteignamati. Öll önnur sveitarfélög á suðvesturhorni landsins hafa lækkað álagningarprósentuna undanfarin ár til að koma til móts við atvinnulífið vegna mikilla hækkana fasteignamats. Boðuð lækkun borgaryfirvalda á skattinum niður í 1,6% um áramót hefur staðið til frá upphafi kjörtímabilsins en átti reyndar ekki að koma öll til framkvæmda fyrr en árið 2022.

„Okkur þykir ekki mikið til þessarar lækkunar koma og teljum að borgin þurfi að gera meira,“ sagði Ólafur og benti á að þrátt fyrir boðaða lækkun yrði Reykjavíkurborg að óbreyttu áfram með hæsta skattinn á atvinnuhúsnæði af sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.

Fasteignaskattar fyrirtækja hafa hækkað í takt við hækkanir á fasteignamati atvinnuhúsnæðis undanfarin ár. Þannig hafa skattgreiðslur fyrirtækja í Reykjavík vegna húsnæðis hækkað um 73,3% frá árinu 2014. Á árinu 2020, sem er eitt erfiðasta rekstrarár fjölda fyrirtækja, nemur hækkunin 4,7%. Líklegt er að fasteignamat atvinnuhúsnæðis lækki á næsta ári, en það hjálpar engum fyrr en á þarnæsta ári, þar sem skattar eru greiddir af fasteignamati sem reiknað er út árið á undan.

Ólafur sagði að mat FA væri að fasteignaskatturinn væri afskaplega óheppilegur og ósanngjarn skattur sem legðist á eigið fé fyrirtækja óháð afkomu. „Núna leggst hann á af fullum þunga, á sama tíma og meirihluti fyrirtækja gengur á eigið fé. Þetta er flestum fyrirtækjum alveg gríðarlega þungbært og varla hægt að gera of mikið úr því,“ sagði Ólafur.

Hann ítrekaði áskoranir FA til sveitarfélaga um að fella niður fasteignaskatta tímabundið eða lækka þá, svo og áskorun til sveitarfélaganna og ríkisins að setjast að samningaborði og finna nýja og sanngjarnari umgjörð gjaldtöku af atvinnuhúsnæði.

 

 

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning