Meirihluti stjórnarflokkanna í atvinnuveganefnd Alþingis leggur til að eldri aðferð við útboð á tollkvóta fyrir búvörur gildi í þrjú ár, í stað eins árs eins og lagt var til í frumvarpi Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Í frumvarpi ráðherra og nefndaráliti meirihlutans segir beinum orðum að aðgerðin sé til þess hugsuð að vernda innlenda landbúnaðarframleiðslu.
Félag atvinnurekenda, Alþýðusambandið, Neytendasamtökin, Samtök verslunar og þjónustu, Viðskiptaráð Íslands og Samkeppniseftirlitið hafa í umsögnum til atvinnuveganefndar öll lagst eindregið gegn samþykkt frumvarps Kristjáns Þórs og bent á að það muni leiða til hækkunar á verði búvara. Alþýðusambandið bendir i sinni umsögn á niðurstöður nýlegrar verðkönnunar sinnar, sem það segir sýna að breytt fyrirkomulag við útboð tollkvóta hafi komið neytendum til góða og hækkun á afurðum sem falla undir útboð tollkvóta reynst hófleg samanborið við verðþróun á annarri matvöru.
Stjórnarmeirihlutinn í atvinnuveganefnd gerir ekkert með þessar umsagnir, heldur bætir um betur og leggur til að þær samkeppnishömlur, sem frumvarpið felur í sér, gildi í þrjú ár í stað eins árs.
Djúpt sokknir í vasa sérhagsmuna
„Það veldur miklum vonbrigðum að meirihluti atvinnuveganefndar gangi með þessum hætti þvert gegn sjónarmiðum samtaka verslunarinnar og almennings, en gangi erinda sérhagsmuna í landbúnaði,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. „Við höfum talið að styðja ætti með almennum aðgerðum við landbúnaðinn eins og aðrar greinar, sem hafa orðið fyrir áföllum vegna heimsfaraldursins. Hér er hins vegar farin sú leið að hamla samkeppni til að vernda innlenda framleiðendur og ganga um leið á hag verslunarfyrirtækja og neytenda. Með framlengingu á samkeppnishömlunum er líka ljóst að þetta mál er hætt að snúast um aðgerðir vegna heimsfaraldursins og verið er að láta undan þrýstingi úr landbúnaðinum um að vinda ofan af umbótum í átt til meiri samkeppni og viðskiptafrelsis, sem hafa náðst fram á síðustu árum. Það er einkar dapurlegt að sjá stjórnarflokkana svona djúpt sokkna í vasa sérhagsmuna.“
FA hvetur alþingismenn eftir sem áður eindregið til að hafna frumvarpi ráðherra.