Verndarstefna fyrir viðskiptafrelsi

03.01.2021

Áramótagrein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Kjarnanum 1. janúar 2021. 

Þrátt fyrir faraldurinn hefur matvælaframleiðsla um flest gengið sinn gang og með samstilltu átaki fyrirtækja og stjórnvalda um allan heim hefur verið hægt að halda flutningakeðjum órofnum.

Efnahagskreppan, sem skall yfir heimsbyggðina á þessu makalausa ári vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar, er sú dýpsta í níu áratugi. Sagan sýnir okkur að í kreppu koma alltaf fram kröfur um verndarstefnu; að stjórnvöld hækki tolla og leggi ýmsar aðrar hömlur á frjáls viðskipti og samkeppni til að vernda innlent atvinnulíf eða tiltekna geira þess. Sagan sýnir okkur líka að það er ævinlega vond hugmynd; þau ríki sem hafa orðið við slíkum kröfum hafa verið lengur að komast út úr kreppunni en þau sem viðhéldu viðskiptafrelsi og samkeppni. En það er engan veginn öllum gefið að læra af sögunni.

Veiran afsökun fyrir verndarstefnu?
Kröfur um verndarstefnu hafa raunar verið háværar frá því í fjármálakreppunni fyrir áratug og ýmis stjórnmálaöfl hafa hagnazt á að taka undir þær. Flokkar og frambjóðendur sem þrífast á lýðskrumi hafa víða um lönd náð fótfestu, meðal annars út á slíkan málflutning sem geldur varhug við hnattvæðingu og alþjóðaviðskiptum. Við þurfum ekki annað en að nefna nöfnin Trump, Johnson og Bolsonaro. Faraldur veirunnar sem þeir smituðust af allir þrír, ásamt milljónum annarra um allan heim, er að sumra mati frábær afsökun fyrir því að hverfa aftur til verndarstefnu.

Við höfum ekki farið varhluta af þessari umræðu hér á landi, en hún afmarkast aðallega við eina atvinnugrein, landbúnaðinn. Því hefur verið haldið fram að heimsfaraldurinn sýni vel að nú þurfi Ísland að gera gangskör að því að vera sjálfu sér nægt um mat í þágu fæðuöryggis og í því skyni eigi að eyða meiri peningum í landbúnaðinn og verja hann betur fyrir samkeppni. Faraldurinn og það efnahagslega högg sem honum fylgir hefur skrúfað upp þrýsting hagsmunaafla í landbúnaðinum á stjórnvöld að snúa við breytingum í átt til frjálsra viðskipta og samkeppni sem átt hafa sér stað á undanförnum árum með því að auka aftur hömlur á innflutning, undanþiggja kjötafurðastöðvar samkeppnislögum og segja upp tollasamningi Íslands og Evrópusambandsins.

Viðskiptafrelsið tryggir fæðuöryggi
Fæðuöryggisröksemdin gengur reyndar alls ekki upp. Staðreyndin er sú að í verstu farsótt, sem gengið hefur yfir heimsbyggðina í meira en öld, hafa alþjóðaviðskipti með matvæli verið að mestu leyti ótrufluð, þótt stöku vandamál hafi komið upp. Þrátt fyrir faraldurinn hefur matvælaframleiðsla um flest gengið sinn gang og með samstilltu átaki fyrirtækja og stjórnvalda um allan heim hefur verið hægt að halda flutningakeðjum órofnum. Innflutningur á mat til Íslands hefur þannig verið ótruflaður og ekkert neyðarástand vegna vöruskorts komið upp.

Ef flutningar til landsins hefðu lamazt og eingöngu innlend framleiðsla hefði fengizt í búðunum, er hætt við að fáum hefði fundizt þeir búa við fæðuöryggi þegar t.d. allt innflutta grænmetið og ávextina hefði vantað, pastað, kexið og kornmatinn, niðursuðuvörurnar og allt hitt – staðreyndin er sú að af um 1.900 tollskrárnúmerum fyrir landbúnaðarvörur í íslenzku tollskránni innihalda aðeins um 300 vörur sem framleiddar eru hér á landi, enda býður náttúra Íslands ekki upp á mjög fjölbreytta búvöruframleiðslu. Okkar styrkleiki er í sjávarafurðum.

Reyndar hefði fljótlega farið að stórsjá á framboði innlendrar matvöru líka ef flutningar til landsins hefðu stöðvazt, því að hún hefði þá ekki fengið hráefni, áburð, eldsneyti, vélbúnað, varahluti, umbúðir og allt hitt sem þarf að flytja inn til að geta framleitt mat handa neytendum á Íslandi.

Ísland er þannig háð innflutningi um fæðuöryggi sitt og verður aldrei sjálfu sér nægt um allan mat. Fæðuöryggi sitt á Ísland eins og flest önnur ríki undir frjálsum alþjóðaviðskiptum og öflugum, alþjóðlegum aðfangakeðjum sem hafa haldið, þrátt fyrir áföll af völdum heimsfaraldursins. Ef það á að draga einhvern lærdóm af þeim takmörkuðu vandkvæðum sem heimsfaraldurinn hefur haft í för með sér fyrir alþjóðlegar aðfangakeðjur er það líklega fremur að vera ekki háð einu ríki eða svæði um aðföng, heldur að stunda sem frjálsust viðskipti við sem flesta.

Er gott fyrir Ísland að allir séu sjálfum sér nógir?
Það gleymist líka stundum þegar menn tala fjálglega um að landið eigi helzt af öllu að framleiða sjálft allan mat sem það mögulega getur, að ef sama hugmynd næði fótfestu í öllum löndum væri það alveg svakalega vont fyrir Ísland. Ísland er nefnilega matvælaútflutningsland og flytur miklu meira út af matvælum en það flytur inn. Alþjóðaviðskipti með mat í heiminum nema átta trilljónum Bandaríkjatala og þrír fjórðu hlutar mannkynsins lifa að hluta til á innfluttum matvælum. Þótt bara litlum hluta þessa fólks færi að finnast það slæm hugmynd að borða innfluttan fisk, væri íslenzka hagkerfið í vondum málum.

Stjórnvöld hafa að hluta til látið undan þrýstingi þeirra sem finnst frjáls alþjóðaviðskipti frábær hugmynd þegar þeirra eigin vörur eru fluttar út, en alveg afleitt þegar samkeppnisvörur eru fluttar inn. Segja má að samþykkt frumvarps Kristjáns Þórs Júlíussonar, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, um að hverfa tímabundið aftur til eldri aðferðar við útboð á tollkvótum fyrir búvörur sé stutt skref til móts við þá sem vildu láta banna innflutning alfarið – sem hefði verið brot á lögum og alþjóðasamningum. Ríkisstjórnin lét heldur ekki undan þrýstingi um að segja upp tollasamningnum við Evrópusambandið, en óskaði eftir viðræðum um endurskoðun hans. Undirbúningur að því að undanskilja enn stærri hluta landbúnaðarins samkeppnislögum er hins vegar augljóslega í gangi.  Og verulegur þungi er áfram í þrýstingnum frá þeim, sem vilja vinda ofan af umbótum í frjálsræðisátt. Lesið bara nefndarálit meirihluta atvinnuveganefndar Alþingis um frumvarp ráðherrans.

Verndum samkeppni og viðskiptafrelsi
Stuðningsaðgerðir stjórnvalda við atvinnulífið hafa að stærstum hluta verið breiðar og almennar; styrkir, gjaldfrestir og lán hafa staðið til boða öllum fyrirtækjum sem uppfylla almenn skilyrði, svo sem um tekjufall af völdum heimsfaraldursins. Stjórnvöld hafa ekki látið hafa sig í að láta undan kröfum um sértæka meðferð fyrir einstakar atvinnugreinar eða fyrirtækjahópa nema í þessu eina tilviki.

Enn betra hefði verið ef þau hefðu staðið í lappirnar og ákveðið strax í upphafi að læra af sögunni og vinna sig út úr kreppunni með meiri samkeppni og frjálsari viðskiptum. Það væri gott ef við ættum stjórnmálamenn sem segðu skýrt: Það sem þarf helzt að vernda er samkeppni og viðskiptafrelsi. Þannig komumst við hraðar út úr erfiðleikunum.

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning