Viðskiptablaðið fjallar í síðasta tölublaði sínu um úttekt FA á fasteignaskatti á atvinnuhúsnæði í 12 stærstu sveitarfélögum landsins. Hún sýndi að þrátt fyrir að Reykjavíkurborg væri í hópi þeirra fjögurra sveitarfélaga, sem lækkuðu fasteignaskatta á fyrirtæki um áramótin, er skattur á atvinnuhúsnæði áfram hæstur í borginni af sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.
Samkeppnisstaða borgarinnar batnar með lækkun
Viðskiptablaðið veltir upp þeirri spurningu hvort hár fasteignaskattur spili inn í ákvarðanir fyrirtækja á borð við Íslandsbanka, Icelandair og Isavia, sem hafa ákveðið að færa höfuðstöðvar sínar frá Reykjavík og til nágrannasveitarfélaga. Haft er eftir Ólafi Stephensen, framkvæmdastjóra FA, að félagið hafi bent á að samkeppnisstaða Reykjavíkurborgar hafi versnað verulega gagnvart nágrannasveitarfélögum undanfarin ár, þar sem þau hafi lækkað skattprósentuna á meðan borgin hafi haldið henni í lögleyfðu hámarki.
„Reykjavíkurborg er núna, í fyrsta skipti í mörg ár, að lækka fasteignagjöldin á atvinnuhúsnæði. Það bætir samkeppnisstöðu borgarinnar að einhverju leyti gagnvart nágrannasveitarfélögum, sem var orðin býsna slæm. Það breytir samt ekki því að borgin innheimtir áfram hæstu fasteignagjöldin á höfuðborgarsvæðinu.“
Hátt fasteignamat fælir verslun og viðskipti úr miðbænum
Ólafur kveðst þekkja dæmi um að há fasteignagjöld Reykjavíkurborgar hafi spilað stóra rullu í ákvörðun fyrirtækja um að flytja sig um set í nágrannasveitarfélög. Hátt fasteignamat samkvæmt umdeilanlegum álagningastuðlum hafi einnig orðið til þess að fyrirtæki hafi horfið úr miðbænum.
„Fasteignagjöldin hafa því líka spilað inn í það að veikja verslun og viðskipti í miðborginni. Fasteignagjöld eru vissulega þáttur sem maður heyrir að fyrirtæki horfi til því þessi skattur verður alltaf stærri og stærri hluti af rekstrarkostnaði með hækkunum á fasteignamati.“
Enn sem komið er séu þó ekki mörg dæmi sem hægt sé að benda á um að fyrirtæki hafi beinlínis flutt sig um set milli sveitarfélaga vegna hárra fasteignagjalda. „En þetta spilar klárlega inn í þegar, sem dæmi, er verið að taka ákvörðun um staðsetningu fyrir nýjar höfuðstöðvar fyrirtækja,“ segir Ólafur.
Umfjöllun Viðskiptablaðsins: Hár skattur að fæla fyrirtæki úr borginni?
Umfjöllun Viðskiptablaðsins: Fasteignaskattar veikt verslun í borginni