Út úr kreppunni með virkri samkeppni

17.02.2021

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Viðskiptamogganum 17. febrúar 2021.

Atvinnulausir í kreppunni miklu í Bandaríkjunum. Talið er að haftastefna hafi framlengt kreppuna um sjö ár. (Wikimedia)

Full ástæða er til að hafa áhyggjur af því að ýmis öfl í íslenzku samfélagi vilji nota kórónuveirufaraldurinn sem átyllu til að draga úr samkeppni, veikja samkeppnislögin eða veita frá þeim ótímabundnar undanþágur og grípa til ýmissa annarra aðgerða í anda verndarstefnu. Sömuleiðis er rík ástæða til að veita stjórnvöldum aðhald við útfærslu hinna mörgu og nauðsynlegu stuðningsaðgerða fyrir atvinnulífið vegna faraldursins, til að þess sé gætt að þær skaði ekki samkeppni.

Af þessum ástæðum ákvað Félag atvinnurekenda að halda opinn streymisfund í síðustu viku, í tengslum við aðalfund sinn, undir yfirskriftinni „Samkeppnin eftir heimsfaraldur“. Óhætt er að segja að þar hafi samkeppnismálin verið sett í áhugavert ljós. Á meðal þess sem fram kom er eftirfarandi:

  • Áherzla á frjálsa samkeppni og afnám hafta hjálpar ríkjum að komast hraðar út úr kreppu. Að taka samkeppnislög úr sambandi og bæta í höft og tolla hefur gagnstæð áhrif. Slík stefna er talin hafa seinkað efnahagsbatanum eftir kreppuna miklu í Bandaríkjunum um sjö ár, að því er fram kom í erindi Aniu Thiemann, yfirmanns samkeppnismats hjá Efnahags- og framfarastofnuninni, OECD.
  • Samkeppnismatið, sem OECD framkvæmdi á regluverki byggingariðnaðar og ferðaþjónustu á Íslandi fyrir skömmu, leiddi í ljós meiri óþarfar samkeppnishömlur og skriffinnsku en víðast hvar í aðildarríkjum stofnunarinnar. Þessar hömlur kosta þjóðarbúið um þrjátíu milljarða króna og bitna sérstaklega illa á samkeppnishæfni minni og meðalstórra fyrirtækja. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra samkeppnismála, orðaði það svo að það væri ábyrgðarleysi að finna ekki beztu leiðina til að hrinda umbótatillögum OECD varðandi þessar tvær greinar í framkvæmd og halda svo áfram á sömu leið og taka út fleiri svið atvinnulífsins.
  • Stuðningsaðgerðir stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins hafa í nokkrum tilvikum haft mjög neikvæð áhrif á samkeppni. Leifur Örn Leifsson hjá Innnesi, stórum innflytjanda matvæla, fór yfir það hvernig breyting á aðferð við útboð á tollkvóta fyrir búvörur um síðustu áramót stuðlaði að hækkun útboðsgjalds og skekkti þannig samkeppnisstöðu keppinauta innlendrar búvöruframleiðslu. Leifur færði rök fyrir því að innlendur landbúnaður þyrfti ekki slíka vernd, enda nyti hann eindregins velvilja neytenda, en hefði hins vegar gott af meiri samkeppni frá innflutningi, eins og hefði sézt í vöruþróun og nýsköpun hjá landbúnaðinum síðustu misseri.
  • 500 milljóna króna niðurgreiðsla á sumarnámi í háskólum til að hjálpa atvinnuleitendum, varð til þess að endurmenntunarstofnanir háskólanna buðu námskeið, sem haldin eru í beinni samkeppni við námsframboð einkarekinna fræðslufyrirtækja, á 10% af venjulegu verði. Eyþór Eðvarðsson hjá Þekkingarmiðlun, einum af félagsmönnum FA, velti upp þeirri spurningu hvað hefði gerzt á bakarísmarkaðnum ef ríkið hefði látið fimm bakarí hafa peninga þannig að þau gætu niðurgreitt vörur um 90% allt sumarið.
  • Það er ekki nóg að gera samkeppnismat á núgildandi löggjöf um atvinnulífið. Það þarf líka að leggja slíkt mat á tillögur að nýju regluverki, til dæmis vegna kórónuveirufaraldursins. Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, sagði að slíkt hefði átt að gera vegna veitingar ríkisábyrgðar til Icelandair síðastliðið haust og sömuleiðis við ákvörðun um ríkisstyrk til háskólanna vegna námskeiðahalds. Mjög mikilvægt sé að stjórnvöld meti áhrif stuðningsaðgerða sem gripið er til og útfæri þær þannig að samkeppnislegur skaði sé lágmarkaður.

Félag atvinnurekenda mun halda áfram að tala fyrir því að leið sóknar og frjálsrar samkeppni sé vörðuð út úr kreppunni, sem við erum núna stödd í en að ekki verði fallið í þá freistni að grípa til hafta og verndaraðgerða fyrir einstök fyrirtæki eða atvinnugreinar. Virk samkeppni er mikilvægir hagsmunir félagsmanna okkar, sem flestir eru lítil eða meðalstór fyrirtæki, og um leið neytenda og samfélagsins í heild.

 

Upptaka af fundi FA, „Samkeppnin eftir heimsfaraldur“

Nýjar fréttir

Innskráning