Umboðsmaður Alþingis hefur komist að þeirri niðurstöðu að heilbrigðisráðuneytið hafi ekki staðið rétt að álagningu eftirlitsgjalds vegna tilkynninga til Neytendastofu um markaðssetningu rafrettna og tengdra vara. Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu um áramót, m.a. á þeim forsendum að ráðuneytið sagðist stefna að endurskoðun gjaldtökunnar. Henni átti að kröfu umboðsmanns að ljúka fyrir 1. mars en ekkert hefur frést af útkomunni. FA hefur óskað upplýsinga frá ráðuneytinu um niðurstöðu endurskoðunarinnar.
Forsaga málsins er að haustið 2018 gaf heilbrigðisráðherra út reglugerð, þar sem lagt var 75.000 króna gjald á hverja einustu tilkynningu til Neytendastofu um markaðssetningu á rafrettum og tengdum vörum. Félag atvinnurekenda gagnrýndi gjaldtökuna harðlega, m.a. vegna þess að greiningu á þeim kostnaði, sem gjaldið átti að standa undir, skorti. Engin svör bárust hins vegar frá ráðuneytinu fyrr en eftir að kvartað hafði verið til umboðsmanns Alþingis. Reglugerðin sem gjaldið byggist á, var staðfest 31. ágúst 2018 og tók gildi daginn eftir. Eftir að FA hafði leitað liðsinnis umboðsmanns, barst félaginu kostnaðargreining Neytendastofu vegna gjaldsins, en hún var ekki dagsett fyrr en 4. febrúar 2019, þannig að kostnaðargreiningin var augljóslega gerð eftir á.
Umboðsmaður gerir athugasemdir
Umboðsmaður fór fram á svör frá ráðuneytinu um vinnubrögðin í mars 2019. Hann taldi þau að mörgu leyti ófullnægjandi og krafðist ýtarlegri rökstuðnings í ágúst sama ár. Umboðsmaður lauk málinu með erindi til heilbrigðisráðuneytisins rétt fyrir síðustu áramót, þar sem hann kom á framfæri ýmsum ábendingum við ráðuneytið. Embættið taldi að ráðuneytið hefði ekki staðið rétt að ákvörðun um þjónustugjaldið, þar sem það hefði ekki haft fullnægjandi upplýsingar um forsendur þess áður en reglugerðin tók gildi. Úr þessum annmarka hefði þó að nokkru leyti verið bætt eftir að reglugerðin tók gildi og þá að hluta vegna þess að ráðuneytið brást við erindum FA vegna málsins með því að afla nánari upplýsinga frá Neytendastofu. Þá hefði ekki legið ljóst fyrir áður en reglugerðin var sett að hvaða marki Neytendastofa hefði miðað gjaldið við stofnkostnað, sem er almennt ekki heimilt að taka tillit til þegar þjónustugjöld eru ákvörðuð. Loks gerir umboðsmaður athugasemdir við að tekið sé sama gjald fyrir tilkynningu um rafrettu og undirhluti hennar og fyrir tilkynningu um stakan undirhlut sem ekki hefur verið tilkynntur áður og telur að eðlilegt geti verið að ákvarða gjöld sérstaklega fyrir ólíka flokka tilkynninga, því að ella væru sumir látnir greiða hærra gjald en nemur kostnaði við að veita þeim þjónustuna.
Ekkert bólar á boðaðri endurskoðun
Umboðsmaður segir í bréfi sínu til ráðuneytisins að boðuð endurskoðun ráðuneytisins á töku gjaldsins sé á meðal ástæðna þess að hann hafi ákveðið að ljúka athugun sinni á málinu. Hann segist í erindi sínu til Svandísar Svavarsdóttur ráðherra vænta þess að ofangreind atriði verði höfð til hliðsjónar í þeirri vinnu.
„Jafnframt óska ég þess sérstaklega að umboðsmaður Alþingis verði upplýstur um afrakstur endurskoðunar á gjaldinu eigi síðar en 1. mars 2021 og þá hvort og þá hvaða áhrif framangreind atriði hafi haft í þeim efnum,“ segir í erindi umboðsmanns Alþingis.
Ekkert hefur frést af endurskoðun ráðuneytisins á gjaldtökunni. Hinn 19. mars síðastliðinn sendi FA ráðuneytinu enn eitt erindið og óskaði eftir upplýsingum um niðurstöður endurskoðunar ráðuneytisins á töku gjaldsins og að fá afrit af bréfi ráðuneytisins til umboðsmanns.
Í erindi FA kemur fram að hafi endurskoðunin ekki átt sér stað í samræmi við óskir umboðsmanns hvetji félagið ráðuneytið eindregið til að hraða henni og upplýsa félagið og umboðsmann hið fyrsta, í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti.
Algeng sorgarsaga
„Sagan af þessum samskiptum FA við stjórnvöld, fyrir hönd félagsmanna sem flytja inn og selja rafrettur, er því miður algeng sorgarsaga,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA. „Stjórnsýslan ákveður oft og iðulega þjónustu- og eftirlitsgjöld, sem geta verið mjög íþyngjandi fyrir fyrirtæki, án fullnægjandi kostnaðargreiningar, upplýsinga og rökstuðnings. Jafnvel þótt leitað sé liðsinnis umboðsmanns Alþingis tekur óratíma fyrir fyrirtækin að fá leiðréttingu sinna mála, eins og sést á því að ráðuneytið hefur enn ekki endurskoðað gjaldtökuna tveimur og hálfu ári eftir að hún hófst.“
Uppfært 6. apríl:
Frá embætti umboðsmanns Alþingis fengust þær upplýsingar 26. mars að eftir að FA sendi erindi á ráðuneytið hefði því verið veittur frestur til 1. apríl til að veita umboðsmanni umbeðnar upplýsingar. Í dag, 6. apríl, fengust svo þær upplýsingar að ráðuneytið hefði fengið framlengdan frest til 16. apríl.