Grein Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptablaðinu 21. október 2021
Pistill „Týs“ í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins bendir til að dálkahöfundurinn hafi eitthvað misskilið baráttu Félags atvinnurekenda fyrir frjálsum viðskiptum með áfengi. „Týr“ staðhæfir að FA hafi „beitt sér gegn öllum þeim breytingum sem lagðar hafa verið fram á áfengislögum síðastliðinn áratug eða svo.“ Jafnframt er FA sagt „oft virðast draga taum Ölgerðarinnar“.
Í Félagi atvinnurekenda eru mörg fyrirtæki sem með einum eða öðrum hætti koma að viðskiptum með áfengi eða hafa á þeim áhuga. Þau eru t.d. í framleiðslu á bæði bjór og sterku áfengi, innflutningi á áfengi, dreifingu áfengis fyrir netverzlanir – og sum þeirra hafa ríkan áhuga á að hasla sér völl í smásölu á áfengi ef til þess er veitt skýr heimild. FA getur ekki leyft sér að draga taum eins félagsmanns á kostnað annarra.
FA talar fyrir víðtækum breytingum
Það er einmitt ein meginástæða þess að félagið hefur um árabil talað fyrir víðtækri endurskoðun á lagarammanum um sölu, markaðssetningu og skattlagningu áfengis. Að mati FA þarf þrennt að fara saman; að heimila einkafyrirtækjum að selja áfengi í smásölu (hvort sem er á netinu eða með öðrum hætti) og leggja um leið niður Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins, að leyfa áfengisauglýsingar með skýrum skilyrðum og að breyta fyrirkomulaginu á innheimtu áfengisgjalds, sem tekur mið af gamla ríkiseinokunarskipulaginu sem enn er við lýði.
Það er einfaldlega rangt hjá „Tý“ að FA hafi lagzt gegn öllum breytingum sem lagðar hafa verið til á áfengislögunum. Félagið hefur sjálft lagt til ofangreindar breytingar, oftar en hægt er að hafa tölu á. Það studdi jafnframt í öllum meginatriðum frumvarp Teits Björns Einarssonar og fleiri þingmanna sem lagt var fram á 146. löggjafarþingi árið 2017, enda var þar tekið á öllum þeim þáttum sem FA telur máli skipta.
Einhver hópur – og kannski er „Týr“ í honum – virðist haldinn þeirri hugsunarvillu eða rökleysu að aðili sem vill frelsi í x sé andstæðingur þess sem vill frelsi bæði í x og y. Fólk sem gefur sig út fyrir að vera hlynnt frelsi á áfengismarkaðnum er í ógurlegri fýlu út í Félag atvinnurekenda fyrir að vilja meira frelsi en það leggur sjálft til.
Í því samhengi má nefna að „Týr“ heldur því fram að það andi köldu á milli Arnars Sigurðssonar vínkaupmanns og FA. Sá kaldi andardráttur er eingöngu á annan veginn – FA dáist að kjarki og frumkvöðlaanda Arnars og skilur líka vel að hann skuli fyrst og fremst horfa á eigin hagsmuni í málinu.
Bútasaumur býr til ójafnræði
FA hefur hins vegar lagzt gegn tillögum um bútasaum, þar sem gerðar eru breytingar á litlum hluta markaðarins án þess að horfa á heildarmyndina. Það hefur félagið talið búa til nýjar samkeppnishindranir og ójafnræði. Það hefur þannig lagzt gegn því að aðrar reglur eigi að gilda um smásölu á sterku áfengi en bjór og léttvíni. Það hefur verið á móti tillögum um að hrófla ekki við auglýsingabanninu um leið og smásala er gefin frjáls, vegna þess ójafnræðis sem það myndi orsaka á milli heildsala og smásala áfengis. Það hefur lagzt gegn tillögum um að afnema einkarétt ríkisins á smásölu en reka engu að síður ÁTVR áfram, enda væri ríkið þá enn og aftur komið í samkeppni við einkaaðila. FA hefur lagzt gegn því að sumum bjórverksmiðjum yrði heimilað að selja áfengi í smásölu á framleiðslustað en ekki öðrum og það hefur ekki séð neitt vit í því að leyfa innlendum brugghúsum slíka sölu en banna þeim sem framleiða sterkt áfengi að selja sína vöru með sama hætti. Þannig mætti áfram telja.
FA hefur þess í stað lagt áherzlu á víðtæka endurskoðun áfengislöggjafarinnar, með viðskiptafrelsi að leiðarljósi. Þessi endurskoðun hefur orðið brýnni eftir því sem þróun viðskipta og samskiptatækni holar að innan og gerir enn fáránlegri en áður lagaboð eins og ríkiseinokun á smásölu og bann við áfengisauglýsingum. Hvorugt lagaboðið virkar, eins og FA hefur ítrekað bent á. Í dag ganga lögin út frá því að t.d. innlend netverzlun með áfengi og áfengisauglýsingar séu bannaðar og þar af leiðandi gilda engar reglur um þessa starfsemi þótt hún fari fram fyrir allra augum og án afskipta stjórnvalda. FA hefur talið vænlegra út frá lýðheilsu- og forvarnasjónarmiðum, sem oft er haldið á lofti í umræðu um áfengismarkaðinn, að leyfa slíka starfsemi og setja um leið um hana skynsamlegar reglur.
Heildarendurskoðun komin á dagskrá
Viðleitni FA til að fá stjórnvöld til að skýra lagaumhverfið á áfengismarkaðnum og veita fyrirtækjum skýr svör um hvað sé heimilt og hvað ekki hefur nú skilað þeim árangri að dómsmálaráðuneytið hefur lýst því yfir að það telji áfengislöggjöfina úrelta og mikilvægt að „ráðast í heildarendurskoðun á áfengislögum til að þau endurspegli breytta þróun á sviði verslunar og framleiðslu áfengis hér á landi.“ Það skiptir máli fyrir fyrirtækin á áfengismarkaðnum að slík heildarendurskoðun sé loksins komin á dagskrá stjórnvalda.
Félag atvinnurekenda hyggst halda stjórnvöldum við efnið í þessum málum og hefur þá vonandi „Tý“ og annað frelsisþenkjandi fólk með sér í liði.