Skriffinnska og skortur á rafrænni stjórnsýslu er eitt af því sem hamlar greiðum viðskiptum Íslands og Bretlands eftir útgöngu síðarnefnda ríkisins úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu. Þetta var á meðal þess sem fram kom á fundi hátt settra breskra viðskiptasendimanna með félagsmönnum FA á fundi sem haldinn var í gær undir yfirskriftinni „Viðskiptasamband á nýjum grunni“.
Mikill og gagnkvæmur vilji til að auka viðskipti
Gestir fundarins voru Chris Barton, viðskiptafulltrúi fyrir Evrópu í brezka utanríkisviðskiptaráðuneytinu, og Felicity Buchan, viðskiptasendimaður forsætisráðherra Bretlands gagnvart Íslandi og Noregi. Umræðuefnið var viðskipti Íslands og Bretlands eftir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu. Bretland er eitt stærsta viðskiptaland Íslands og viðskiptin fara nú fram á grundvelli bráðabirgðafríverslunarsamnings á meðan beðið er staðfestingar varanlegs fríverslunarsamnings. Gestir fjölluðu vítt og breitt um viðskipti ríkjanna, áskoranir og tækifæri í nýrri stöðu og þá reynslu sem komin er á fríverslunarsamninginn. Miklar umræður sköpuðust og af þeim mátti ráða mikinn og gagnkvæman vilja til að vinna að því að auka viðskipti á milli landanna.
Tvískönnun vegna upprunareglna vandamál
Mikið var spurt um tvísköttun sem verður til vegna upprunareglna í viðskiptum með vöru sem upprunnin er í ESB en seld frá og Bretandi til Íslands eða öfugt. Félagsmenn voru á því að laga þyrfti til íslenskar reglur til að tryggja að slíkar vörur væru gjaldfrjálsar. Var sumum innflytjendum tíðrætt um tafir í flutningum á vörum og var því svarað til að þar hefði COVID meiri neikvæð áhrif á flutninga en Brexit en í öllu falli væri verið að greiða úr þeim töfum sem orðið hafa. Þá var einnig rætt um upprunavottorð, heilbrigðisvottorð og ýmsa skjalavinnu sem ætti með réttu að vera rafræn – vandinn virðist liggja hjá íslenskum yfirvöldum sem fara oft fram á frumrit skjala, að nauðsynjalausu en öll skilyrði eru fyrir hendi til að innflutningur sem þessi geti gengið snurðulaust fyrir sig með rafrænum hætti. Gestir fundarins kváðust meðvitaðir um framangreind vandamál en það tæki tíma að leysa úr þeim.
Tollkvótum fyrir breskar vörur verði úthlutað án gjalda
Mest umræða var svo um útboð á þeim litlu og afmörkuðu tollkvótum sem að samningurinn við Bretland mælir fyrir um. Almennt voru allir sammála um að það skyti skökku við og væri í raun í slæmri trú að skattleggja vörur sem búið er að semja um að verði gjaldfrjálsar. Var á það bent að engin slík gjaldtaka færi fram við innflutning á íslenskum tollkvótum til Bretlands. Var lögð mikil áhersla á það á fundinum að tollkvótar yrðu stækkaðir og víkkaðir út auk þess sem að úthlutun þeirra yrði að vera án gjalda, enda væri gjaldfrelsið andlag þess sem um væri samið.