Yfirgnæfandi meirihluti félagsmanna FA telur félagið sýnilegt í baráttu sinni fyrir aðildarfyrirtækin og að ímynd þess sé jákvæð, samkvæmt niðurstöðum árlegrar könnunar meðal félagsmanna. Er spurt er um afstöðu félagsmanna til ýmissa baráttumála FA á undanförnum misserum segist drjúgur meirihluti í öllum tilvikum ánægður með frammistöðu félagsins.
Í árlegri könnun meðal félagsmanna var m.a. spurt um sýnileika og ímynd félagsins. Er félagsmenn voru beðnir að taka afstöðu til fullyrðingarinnar „FA er sýnilegt í baráttu sinni fyrir félagsmenn“ sagðist 31% mjög sammála og 58% sammála, samtals 89%. Spurt var um afstöðu til fullyrðingarinnar „ímynd FA er jákvæð“ og sögðust 42% mjög sammála því, en 38% sammála, samtals 80%.
84% ánægðir með frammistöðuna í skattamálum
Spurt var um ánægju félagsmanna með frammistöðu FA í ýmsum baráttumálum, sem félagið hefur látið til sín taka á undanförnum misserum og má sjá niðurstöðurnar á skífuritunum hér fyrir neðan. Mest ánægja kom fram með frammistöðu félagsins í baráttu fyrir lækkun tryggingagjalds og annarra fyrirtækjaskatta; þar sögðust 41% mjög ánægðir og 43% ánægðir, samtals 84%. Næstmest ánægja var með frammistöðu FA í andófi gegn nýjum neyslustýringarsköttum og gegn því að ríkið sé í samkeppni við einkafyrirtæki, en í báðum tilvikum sögðust 81% svarenda ánægðir eða mjög ánægðir með frammistöðuna. Flest „hvorki né“-svör bárust er spurt var um frammistöðu félagsins í baráttu fyrir lækkun tolla á búvörum, fyrir auknu frjálsræði í lagaumhverfi áfengismarkaðarins og fyrir lækkun áfengisskatta.
Lækkun fyrirtækjaskatta efst á blaði
Er spurt var í opnum spurningum hvert ætti að vera helsta baráttumál FA á árinu 2022 svöruðu flestir því til að það ætti að vera lækkun tryggingagjalds og annarra fyrirtækjaskatta, en litlu færri nefndu minni opinber afskipti, minna ríkisbákn og léttara regluverk. Margir nefndu að félagið ætti að berjast fyrir skynsamlegum kjarasamningum með hóflegum hækkunum launakostnaðar og einnig var ofarlega á blaði barátta fyrir að ríkið hætti samkeppnisrekstri.
Könnunin var gerð dagana 31. janúar til 4. febrúar. Hún var send í tölvupósti til 163 félagsmanna með beina félagsaðild. Af þeim svöruðu 57, eða 35%. Svarhlutfall í könnunum undanfarinna ára hefur verið á bilinu 31% til 64%. Svör í könnuninni verða ekki rakin til einstaklinga eða einstakra fyrirtækja.