Næsta örnámskeið um hagnýta lögfræði í fyrirtækjarekstri verður haldið þriðjudaginn 5. apríl kl. 10-10.30. Að þessu sinni er umfjöllunarefnið samkeppnisákvæði í ráðningarsamningum, en á þau reynir oft, m.a. í nýlegum dómsmálum.
Unnur Ásta Bergsteinsdóttir, lögmaður hjá MAGNA lögmönnum, fjallar um heimildir í íslenskum rétti til að kveða á um bann við því að starfsmaður hefji störf eða eigin rekstur í samkeppni við fyrirtækið og hvernig atvinnufrelsi setur slíkum heimildum takmörk. Hún ræðir m.a. með hliðsjón af dómaframkvæmd hvar framangreind mörk liggja; í hve langan tíma sé heimilt að banna starfsmanni að hefja störf hjá keppinauti og hversu víðtæk bannákvæðin megi vera. Þá verður fjallað um það hvort starfsmanni sé heimilt að „taka með sér“ viðskiptavini fyrirtækis og hefja sjálfur starfsemi til að þjónusta viðskiptavini á eigin vegum.
Örnámskeið FA eru stutt vefnámskeið, haldin á Zoom með svokölluðu 20+10-fyrirkomulagi; 20 mínútna fyrirlestur og svo tíu mínútur til að svara spurningum og ábendingum. Þannig er markmiðið að stjórnendur þurfi ekki að taka sér meira en hálftíma í hvert námskeið. Námskeiðin henta framkvæmdastjórum, mannauðsstjórum og fleiri stjórnendum. Þau eru opin félagsmönnum í FA og haldin kl. 10-10.30.
Hægt er að skrá sig á námskeiðið hér að neðan. Skráðir félagsmenn fá svo sendan hlekk til að taka þátt í námskeiðinu með góðum fyrirvara.