Líf Magneudóttir, oddviti Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs fyrir borgarstjórnarkosningarnar, segir að hagsmunir atvinnulífsins gleymist alls ekki í umræðunni um Borgarlínuna og vistvæna ferðamáta. Í samtali Lífar og Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, í hlaðvarpsþættinum Kaffikróknum, er hún m.a. spurð út í áhyggjur af því að verið sé að þrengja að annarri umferð í borginni og þar með vörudreifingu á vegum fyrirtækja. Hægt er að horfa á þáttinn í spilaranum hér að neðan.
„Ég held einmitt að við höfum atvinnulífið í huga,“ segir Líf. „Við þurfum að horfa á að við erum að létta á þessari umferð – fólks sem þarf þá ekki nauðsynlega að nota einkabílinn í öllum sínum ferðum milli heimilis og vinnustaðar – til að létta undir með þeim sem þurfa sannarlega að nota bílinn. Það eru til dæmis leigubílar, almenningssamgöngur, atvinnubílstjórar, sendibílarnir og allt þetta. Þá er gatan greið.“
Líf segir að við eigum ekkert val; breyta verði Reykjavík úr þeirri bílaborg sem hún hefur verið og umbreyta ferðavenjum, bæði vegna lýðheilsu- og umhverfissjónarmiða. „Þetta er ótrúlega stórt verkefni sem tekur tíma, en þetta er einmitt gert fyrir þá sem sannarlega þurfa að nota vegina og komast á milli á vinnutíma.“
Háir skattar ekki kappsmál
Líf segir VG vilja endurskoða tekjustofna sveitarfélaga, að þau fái til dæmis gistináttagjaldið til sín og að fjármunir fylgi verkefnum, sem færast frá ríkinu til sveitarstjórnarstigsins. Hún segir aðspurð hvort Vinstri græn telji koma til greina að lækka fasteignaskatt á atvinnuhúsnæði til samræmis við það sem gerist í nágrannasveitarfélögum: „Það er vel skoðandi ef við getum þá í framhaldinu náð jafnvægi í rekstri borgarinnar. Ég útiloka það alls ekki, það er mér ekki kappsmál að hafa háa skatta en við þurfum að geta staðið undir velferðarþjónustu og grunnþjónustu sem okkur ber að veita.“
Kerfið stundum eins og að vaða þangfjöru
Líf segist viðurkenna að nútímavæða þurfi þjónustu borgarinnar við atvinnulífið, og þar standi stafræn umbreyting fyrir dyrum. „Kerfið er stirt. Ég hef stundum líkt kerfinu við að vaða þangfjöru, í stígvélum jafnvel. Við þurfum að breyta kerfinu ef það virkar ekki. Við erum ekki að búa til kerfi sem er fyrir kerfið, heldur fyrir fólk.“
Borgin byggi sjálf leiguhúsnæði
Líf segir að borgin eigi sjálf að standa fyrir uppbyggingu á ódýru leiguhúsnæði til að lækka húsnæðiskostnað borgarbúa. „Þær aðgerðir sem við höfum farið í, að semja við verkalýðshreyfinguna eða Búseta, hafa ekki skilað stöðugum leigumarkaði,“ segir hún. Stór hópur eigi ekki rétt á þeim íbúðum og grípa þurfi þann hóp. Borgin eigi að byggja 500-1000 íbúðir á ári á uppbyggingarreitum borgarinnar. Hugsanlega verði verkefninu komið fyrir hjá Félagsbústöðum og framkvæmdir síðan boðnar út. Leigjendur greiði tekjutengda leigu og borgin taki lán fyrir framkvæmdunum, þannig að kostnaðurinn bitni ekki á útsvarsgreiðendum. „Tekjumódelið yrði alltaf óhagnaðardrifið, en alltaf á sléttu,“ segir Líf.
Líf og Ólafur ræða ýmis fleiri mál, t.d. hugsanlega einkavæðingu Malbikunarstöðvarinnar Höfða, inn- og útvistun verkefna hjá borginni, skipulagsmál og kjarasamninga borgarstarfsmanna.