Hvað kjósa atvinnurekendur?

04.05.2022
Reykjavík leggur á hæsta fasteignaskattinn á atvinnuhúsnæði af sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.

Grein Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptamogganum 4. maí 2022.

Í sveitarstjórnarkosningum er nærþjónustan við íbúa gjarnan efst á blaði í kosningabaráttunni; almenningssamgöngur, leik- og grunnskólar og önnur opinber þjónusta. Starfsumhverfi atvinnurekstrar er ekki mikið til umræðu fyrir kosningarnar sem fara fram síðar í mánuðinum.

Atvinnurekendur, fólk sem stendur í rekstri af einu eða öðru tagi, er hins vegar drjúgur kjósendahópur. Á Íslandi eru tæplega tuttugu þúsund launagreiðendur. Ætla má að um það bil helmingur þeirra séu einyrkjar, í vinnu hjá sjálfum sér. Drjúgur meirihluti af hinum helmingnum eru lítil og meðalstór fjölskyldufyrirtæki þar sem líklega líta fleiri á sig sem atvinnurekendur en sá sem skráður er fyrir kennitölu launagreiðandans.

Stjórnmálaflokkarnir ættu þess vegna kannski að leggja meira á sig til að kynna stefnu sína varðandi starfsumhverfi fyrirtækjanna. Til að halda þeim við efnið höfum við hjá Félagi atvinnurekenda boðið oddvitum helztu framboða fyrir borgarstjórnarkosningarnar í viðtöl í þættinum Kaffikróknum, sem við birtum á YouTube og Spotify. Flokkarnir sem mynda meirihluta í borgarstjórn taka nefnilega ákvarðanir, sem skipta miklu um hversu aðlaðandi umhverfi borgin býður fyrirtækjum.

FA gerir reglulega kannanir á meðal félagsmanna um hvert eigi að vera helzta baráttumál félagsins. Lækkun fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði lendir þar iðulega í efstu sætunum. Reykjavíkurborg er komin í sérkennilega stöðu hvað þá skattheimtu varðar. Skatturinn er sá hæsti á höfuðborgarsvæðinu, 1,6% af fasteignamati miðað við t.d. 1,4% í Hafnarfirði. Síðustu sex ár hafa fasteignaskattar fyrirtækja í Reykjavík hækkað um milljarð á ári að jafnaði, nánar tiltekið um 71% frá 2015 til 2021. Þetta skaðar augljóslega stöðu borgarinnar í samkeppni við önnur sveitarfélög um fyrirtæki sem skapa störf, verðmæti og skatttekjur.

Annað umkvörtunarefni atvinnurekenda í Reykjavík er borgarkerfið sjálft, sem er gamaldags, óskilvirkt og þungt í vöfum. Borgin má eiga það að í nýrri atvinnu- og nýsköpunarstefnu hennar segir að þjónusta borgarinnar eigi að vera „auðskilin, skilvirk, stafræn og fyrirsjáanleg“. Þetta er einmitt algjör andstæða þess hvernig mörg fyrirtæki upplifa þjónustuna nú; þeim finnst hún flókin, hæg og óskilvirk, það þarf að keyra á milli staða og fylla út eyðublöð með gamla laginu í stað þess að hægt sé að nota stafrænar lausnir og það liggur oft alls ekki fyrir hversu langan tíma borgarkerfið tekur sér í að afgreiða mál.

Félagsmaður í FA þurfti að færa stóra þvottavél á milli hæða í atvinnuhúsnæði. Það reyndist vera sjö mánaða ferli að fá öll tilskilin leyfi hjá borginni. Hann þurfti að keyra á þriðja hundrað kílómetra bara til að fá uppáskriftir iðnmeistara á teikningar í stað þess að hægt væri að afgreiða málið á einum stað á netinu. Annar þurfti að fá endurnýjun á rekstrarleyfi; það tók líka um hálft ár og samtals þurfti hátt í 30 tölvupósta, símtöl og vettvangsskoðanir borgarstarfsmanna áður en leyfið fékkst. Borgarstarfsmenn gleymdu að senda nauðsynleg eyðublöð og gleymdu að mæta í lokaúttekt á húsnæði. Þetta er þjónusta sem ekkert einkafyrirtæki yrði stolt af. Þarna eru augljóslega risavaxin tækifæri til umbóta í þjónustu, sem er ekkert síður mikilvæg en grunnþjónustan við íbúana.

FA hefur aðstoðað nokkra félagsmenn við leit að lóðum þar sem þeir ættu varanlegan samastað og möguleika til stækkunar. Niðurstaðan af þeirri vinnu er að skortur er á hentugum atvinnulóðum í Reykjavíkurborg, á sama tíma og nágrannasveitarfélögin leggja sig mörg hver fram um að mæta þörfum fyrirtækja. Mest lýsandi dæmið fyrir skort á atvinnulóðum er líklega að borgarfyrirtækið Malbikunarstöðin Höfði, sem þarf að víkja fyrir íbúðabyggð, leitaði fyrst fyrir sér um lóð í Mosfellsbæ en endaði svo á að kaupa lóð í Hafnarfirði.

Augljóslega er margt hægt að bæta í umgjörð atvinnurekstrar í Reykjavík. Hinn stóri hópur atvinnurekenda hlýtur að fylgjast vel með því hvað framboðin til borgarstjórnar hafa að bjóða öflugu atvinnulífi.

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning