Ekki farið að lögum um opinberar eftirlitsreglur

24.11.2022

Ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur, sem á að starfa samkvæmt lögum, hefur ekki verið endurskipuð eftir að skipunartími nefndarmanna rann út í maílok 2020. Félag atvinnurekenda hefur sent menningar- og viðskiptaráðuneytinu erindi og hvatt til þess að þeirri lagaskyldu verði sinnt að skipa nefndina og að ráðherra flytji Alþingi reglulega skýrslu um áhrif laga um opinberar eftirlitsreglur og störf nefndarinnar.

„Lög um opinberar eftirlitsreglur voru sett til að hamla gegn stöðugri útþenslu óþarfra reglna sem íþyngja fólki og fyrirtækjum. Starf nefndarinnar, og að farið sé að ákvæðum laganna, er mikilvægt hagsmunamál fyrir félagsmenn í FA,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA.

Eftirlitsreglur takmarki ekki athafnafrelsi og séu hagkvæmar
Lög um opinberar eftirlitsreglur, sem sett voru 1999,  hafa það að markmiði að opinbert eftirlit stuðli að velferð þjóðarinnar, öryggi og heilbrigði almennings, öryggi eigna, umhverfisvernd, eðlilegum viðskiptaháttum og neytendavernd. „Eftirlit á vegum hins opinbera má ekki leiða til mismununar né takmarka athafnafrelsi nema almannahagsmunir krefjist,“ segir í 2. grein laganna. Í 3. grein er kveðið á um að þegar eftirlitsreglur eru samdar eða stofnað er til opinbers eftirlits skuli viðkomandi stjórnvald meta þörf fyrir eftirlit, gildi þess og kostnað þjóðfélagsins af því. „Slíkt mat getur m.a. falist í áhættumati, mati á alþjóðlegum skuldbindingum um eftirlit, mati á kostnaði opinberra aðila, fyrirtækja og einstaklinga, mati á hvort ná megi sama árangri með hagkvæmari aðferðum eða mati á þjóðhagslegu gildi eftirlits.“

Samkvæmt lögunum ber ráðherra að skipa nefnd til ráðgjafar um eftirlit á vegum hins opinbera og framkvæmd laganna. Ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur, eins og hún er nefnd í reglugerð 812/1999, var síðast skipuð í maí 2017 og rann skipunartími hennar út 31. maí 2020. FA hefur átt í nefndinni varamann með seturétt, málfrelsi og tillögurétt.

Færðist á milli ráðuneyta og hætti að funda
Allt þar til snemma árs 2020 heyrði nefndin undir forsætisráðuneytið. Samkvæmt upplýsingum sem FA fékk í forsætisráðuneytinu var þá ákveðið, að beiðni þáverandi ráðuneytisstjóra atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, að opinberar eftirlitsreglur skyldu framvegis bera undir það ráðuneyti. Það mun m.a. hafa verið með þeim rökum að ráðuneytið hafði þá beitt sér talsvert fyrir einföldun regluverks og að á þess vegum var á þeim tíma verið að vinna í samkeppnismati á regluverki íslenzkrar ferðaþjónustu og byggingariðnaðar, í samstarfi við Efnahags- og framfarastofnunina, OECD.

Eftir að málefni nefndarinnar fluttust til atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins var hins vegar enginn fundur haldinn í henni og því virðist eins og áður sagði ekki hafa verið sinnt að skipa í nefndina til samræmis við lög. Samkvæmt forsetaúrskurði sem tók gildi 1. febrúar 2022 ber opinberar eftirlitsreglur nú undir menningar- og viðskiptaráðuneytið.

Mikilvæg verkefni
Samkvæmt ákvæðum ofangreindra laga og reglugerðar á ráðgjafarnefndin að sinna mikilvægum verkefnum, sem eru þannig talin upp í reglugerð:

  1. Taka eftirlitsreglur eða framkvæmd tiltekinnar eftirlitsstarfsemi til athugunar í heild eða að hluta. Athuganir nefndarinnar skulu vera almenns eðlis og mega ekki grípa inn í meðferð einstakra mála, sem eftirlitsstjórnvöld hafa til úrlausnar.
  2. Veita umsagnir um lagafrumvörp og drög að stjórnvaldsfyrirmælum um eftirlitsreglur.
  3. Fylgjast með að endurskoðun eftirlitsreglna sé í samræmi við lög nr. 27/1999 og setja fram ábendingar um endurskoðun eftir því sem við á.
  4. Veita stjórnvöldum ráðgjöf um endurskoðun eftirlitsreglna og framkvæmd eftirlits í samræmi við markmið laga nr. 27/1999.

„Að mati FA hefur nefndin sinnt mikilvægu hlutverki og unnið þarft starf. Mikilvægt er að það starf haldi áfram án frekari tafa. Að mati félagsins vantar einnig talsvert upp á að lögunum um opinberar eftirlitsreglur sé fylgt eftir sem skyldi. Þannig hafa ráðherrar, sem málaflokkurinn heyrir undir, árum saman ekki sinnt þeirri skyldu sinni sem 8. gr. laganna leggur á ráðherra, að flytja Alþingi reglulega skýrslu um áhrif laganna, störf ráðgjafarnefndarinnar og önnur tengd atriði,“ segir í erindi FA til ráðuneytisins.

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning