Félag atvinnurekenda hefur barist ötullega fyrir því að endurskoðaðir séu þeir ofurtollar sem lagðir eru á innfluttar landbúnaðarafurðir. Tollarnir verða til þess að háu matvælaverði er viðhaldið hérlendis sem og samkeppni á markaðnum raskast, sérstaklega á milli innflytjenda og framleiðenda. Slíkt er óeðlilegt og því ber að breyta.
Íslenska ríkið hefur undirgengist alþjóðlegar skuldbindingar á sviði landbúnaðar þar sem Ísland hefur skuldbundið sig til að greiða aðgang fyrir erlendum landbúnaðarvörum inn á íslenskan markað. Mikilvægustu samningarnir í þeim efnum eru Marakess-samningurinn um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, sem inniheldur samning um landbúnað, og tvíhliða samningur Íslands við Evrópusambandið. Báðir samningar innihalda skyldur íslenska ríkisins til að hleypa til landsins tilteknu magni af landbúnaðarvörum á lágum eða engum tollum.
Kerfið sem við höfum byggt upp í kringum innflutning á landbúnaðarvörum er í grófum dráttum tvíþætt.
Árlega boðið út tiltekið magn af landbúnaðarvörum á lægri tollum, svokallaðir tollkvótar. Ef eftirspurn fyrirtækja til innflutnings er meiri en framboð þá fer fram útboð. Hæstbjóðandi hlýtur kvótann. Felur þetta eðli máls samkvæmt í sér aukna tollheimtu og verður bjóðandi að greiða fyrir tollkvótann fyrirfram, þ.e. áður en til innflutnings kemur.
Félag atvinnurekenda hefur gagnrýnt þetta fyrirkomulag og telur það ekki standast lög og alþjóðlega sáttmála að gera fyrirtækjum að greiða ofurverð fyrir innflutningskvóta með þessum hætti. Felur þetta í sér aukna tollheimtu og hækkar matvælaverð umtalsvert.
Opnað er fyrir innflutning á lægri tollum, eða engum, á vörum hérlendis sem ekki er til nægilega mikið af, þ.e. þegar um er að ræða skort. Við slíkar aðstæður er innflytjendum heimilt að flytja inn eins mikið og þeir vilja á lægri tollum. Yfirleitt varir umrædd opnun aðeins í tiltekinn tíma, þó aldrei styttra en einn mánuð.
Áður en ráðherra tekur ákvörðun um það hvort úthluta eigi tollkvóta þá þarf hann að leita til ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara. Sú nefnd starfar á grundvelli 87. gr. laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Nefndin gerir tillögu til ráðherra um m.a. úthlutun á tollkvóta og ber í því starfi að óska m.a. eftir áliti Félags atvinnurekenda.
Félag atvinnurekenda hefur gagnrýnt málsmeðferð nefndarinnar og telur að nefndin eigi í auknu mæli að leita eftir áliti lögbundinna umsagnaraðila þegar teknar eru fyrir umsóknir einstakra fyrirtækja um úthlutun opins tollkvóta. Sjá hér.