Lög félagsins

I.kafli.

Um nafn, heimilisfang og hlutverk.

1. gr.

Nafn félagsins er Félag atvinnurekenda. Heimilisfang félagsins er Hús verslunarinnar, Kringlunni 7, Reykjavík. Á ensku skal nafn félagsins vera The Icelandic Federation of Trade.

2. gr.

Félag atvinnurekenda gætir hagsmuna stórra sem smárra aðildarfyrirtækja með því að vera einarður talsmaður viðskiptafrelsis og heilbrigðrar samkeppni.

II. kafli.

Markmið og tilgangur félagsins.

3. gr.

Markmiðum sínum hyggst félagið ná þannig:

  1. Að þjóna verslun og hvers kyns annarri atvinnustarfsemi á Íslandi og gæta hagsmuna hennar á innlendum og erlendum vettvangi.
  2. Standa vörð um hagsmuni félagsmanna og koma fram fyrir þeirra hönd gagnvart opinberum aðilum og öðrum stofnunum, samtökum og fyrirtækjum í öllum þeim málum sem hagsmuni þeirra varða. Í því felst m.a. að koma fram fyrir hönd félagsmanna, eins eða fleiri, fyrir öllum dómstólum í málum sem varða sameiginlega jafnt sem einstaklingsbundna hagsmuni þeirra.
  3. Efla samstarf meðal félagsmanna og tryggja að verslunin í landinu sé rekin á frjálsum og heilbrigðum grundvelli.
  4. Hafa áhrif á stefnu stjórnvalda og annarra sem tengjast verslun í landinu, með það að markmiði að búa íslenskum verslunarfyrirtækjum starfsaðstöðu sem gerir þau samkeppnishæf á innlendum sem erlendum vettvangi.
  5. Fylgjast með þróun verslunar erlendis, eiga samstarf við hliðstæð samtök erlendis og taka þátt í alþjóðlegu samstarfi verslunar.
  6. Stuðla að og styrkja félagslega, faglega og efnahagslega framför í verslun með markvissri faglegri sérfræðiþjónustu við félagsmenn.
  7. Vinna að viðskipta- og hagrannsóknum til þess að fylgjast með starfsskilyrðum verslunarinnar og bera saman við aðrar greinar atvinnulífsins innanlands og erlendis.
  8. Safna skýrslum eftir því sem föng eru á um allt sem lýtur að verslun og viðskiptum í landinu.
  9. Að stuðla að tryggingu vinnufriðar í landinu og koma í veg fyrir verkföll, með því m.a. að annast undirbúning og gerð allra kjarasamninga fyrir hönd félagsmanna.
  10. Til þess að félagið geti sem best sinnt þessu hlutverki sínu mun það leitast við að hafa skipulag sitt sem skilvirkast og í þeim tilgangi að reka skrifstofu með starfsmönnum er hafa á að skipa sérfræðikunnáttu.

III. kafli.

Aðild og úrsögn.

4. gr.

Aðilar að félaginu geta orðið einstaklingar, félög og fyrirtæki, sem starfa á sviði hvers kyns verslunar og viðskipta. Inntökubeiðnir skulu vera skriflegar, í því formi sem stjórn ákveður hverju sinni, og sendar framkvæmdastjóra félagsins. Inntökubeiðnir skulu lagðar fyrir næsta stjórnarfund eftir að þær berast. Telst beiðni samþykkt ef hún hlýtur samþykki meiri hluta stjórnar.

Heimilt er félaga að segja sig úr félaginu frá áramótum að telja með minnst sex mánaða fyrirvara enda sé hann skuldlaus við félagið. Úrsögn skal vera skrifleg og afhendast framkvæmdastjóra, sem skal gefa skriflega viðurkenningu fyrir móttöku hennar. Þó er óheimilt að segja sig úr félaginu eða fara úr því, meðan verkbann eða verkfall stendur yfir.

Stjórnin tekur ákvarðanir um brottvikningu úr félaginu, en vilji félagsmaður ekki hlíta úrskurði stjórnarinnar, getur hann skotið máli sínu til næsta félagsfundar. Stjórninni er heimilt að nema af félagaskrá þá félaga, sem hafa ekki greitt árgjöld sín til félagsins í eitt ár eða lengur eða eru hættir störfum. Félagsmönnum skal ætíð tilkynnt bréflega um brottvikningu úr félaginu eða útstrikun af félagskrá.

5. gr.

Sérhver félagsmaður er skyldur til, án sérstakrar yfirlýsingar af hans hálfu að hlíta lögum Félags atvinnurekenda, þeim, er nú eru í gildi, eða sett kunna að verða síðar á lögmætan hátt í félaginu.

IV. kafli.

Um félagsfundi.

6. gr.

Lögmætir félagsfundir hafa æðsta vald í öllum málefnum félagsins innan þeirra takmarka, sem lögin setja.

7. gr.

Aðalfund skal halda fyrir 10. mars ár hvert. Aukafundi skal halda þegar stjórn félagsins þykir þurfa, skv. stjórnarfundarályktun, eða þegar þess er krafist af að minnsta kosti 1/5 félagsmanna, enda sé jafnframt sagt til um, hvers vegna fundar sé krafist.

Kröfu um fund skal senda stjórn félagsins, og ber henni að boða til fundarins innan þriggja daga frá því að krafan barst henni, með svo skömmum fyrirvara sem heimilt er samkvæmt lögum þessum. Aðalfund og félagsfundi skal halda í Reykjavík, eða annars staðar, ef sérstaklega stendur á.

8. gr.

Framkvæmdastjóri boðar til félagsfunda eftir ákvörðun stjórnarinnar. Fundi skal boða með tilkynningu til sérhvers félagsmanns með minnst þriggja virkra daga fyrirvara, nema vinnustöðvun sé alveg yfirvofandi eða aðrar jafnbrýnar ástæður réttlæti það, að boðað sé til fundar með styttri fresti. Heimilt er að boða til fundar með tölvupósti til félagsmanna. Taka skal gilda skýrslu framkvæmdastjóra um fundarboðun.

Í fundarboði skal geta þeirra mála, er taka skal fyrir á fundinum. Heimilt er þó á fundi að taka fyrir og leiða til lykta málefni, sem eigi er getið í fundarboði, nema öðruvísi sé ákveðið í lögum þessum, enda sé það samþykkt með 3/4 hlutum greiddra atkvæða fundarmanna. Fundur, sem boðað hefur verið til með löglegum hætti, er lögmætur án tillits til þess hve margir sækja hann, nema öðruvísi sé ákveðið í lögum þessum. Nú er fundur of illa sóttur, en mál hefur verið samþykkt með nægilegum meirihluta fundarmanna, og er þá heimilt að boða til nýs fundar til að leiða til lykta sömu mál, sem getið var í fundarboði til hins fyrra fundar. Skal boðað til hins síðara fundar með sama hætti og til hins fyrra, en taka skal fram, að til hans sé boðað sökum þess að eigi hafi verið nægilega margir á fyrri fundinum. Síðari fundurinn er þá lögmætur án tillits til þess hve margir sækja hann.

9. gr.

Hverjum fundi stýrir kjörinn fundarstjóri. Hann skal kynna sér í fundarbyrjun, hvort löglega hafi verið boðað til fundarins, og skal hann síðan lýsa yfir hvort svo sé. Fundarstjóri kveður sér fundarritara úr hópi fundarmanna. Atkvæðagreiðsla og önnur málsmeðferð á fundum fer eftir því, sem fundarstjóri kveður nánar á um. Þó skal atkvæðagreiðsla jafnan vera skrifleg, ef einhver atkvæðisbærra fundarmanna krefst þess. Löglegir fulltrúar á félagsfundum teljast: Fulltrúar félaga, einstaklingar, eigendur fyrirtækja, framkvæmdastjórar, stjórnarmeðlimir hlutafélaga, prókúruhafar og starfsmenn fyrirtækja, er hafa skriflegt umboð. Þó geta félagsmenn gefið skriflegt umboð öðrum félagsmönnum, en enginn einn fundarmaður má þó fara með meira en þrjú atkvæði (eigið atkvæði auk tveggja annarra) á fundi í félaginu. Rétt til setu á aðalfundum félagsins með málfrelsi og tillögurétt hafa heiðursfélagar í Félagi atvinnurekenda. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum á félagsfundum, nema þegar um fjárhagsleg málefni er að ræða, sem alla félagsmenn varða, þá þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða. Ef atkvæði falla jafnt á félagsfundi ræður hlutkesti úrslitum.

10. gr.

Í gerðabók félagsins skal rita stutta skýrslu um það, sem gerist á félagsfundum, einkum allar fundarsamþykktir. Fundarstjóri og fundarritari undirrita síðan fundargerðina. Fundargerðir þessar skulu vera fullgilt sönnunargagn þess, sem fram hefur farið á fundunum. Ennfremur skal skrá í gerðabók félagsins alla stjórnarfundi, svo og aðra þá fundi, sem stjórnin telur þörf á að bókaðir séu.

11. gr.

Á félagsfundum, þar sem mættir eru félagsmenn sem ráða yfir a.m.k. 1/3 af atkvæðamagni félagsins, er heimilt með 2/3 hlutum greiddra atkvæða að samþykkja, svo bindandi sé fyrir alla félagsmenn, ákvæði um hagsmunamál félagsins í heild, svo og mál fjármunalegs eðlis. Fundurinn sker sjálfur úr um það, með sama atkvæðamagni, hver slík mál eru hverju sinni. Um afnám slíkra ákvæða fer með sama hætti.

V. kafli.

Stjórn félagsins og kosningar.

12. gr.

Stjórn félagsins skulu skipa sex menn, formaður og fimm meðstjórnendur. Ekki skulu sitja færri en tveir af hvoru kyni í stjórn. Formaður skal kosinn sérstaklega og skal hann kjörinn til tveggja ára í senn. Formann má ekki kjósa oftar en tvö kjörtímabil í röð. Meðstjórnendur skal kjósa til tveggja ára í senn. Á kosningaári formanns skal kjósa tvo meðstjórnendur en annars þrjá meðstjórnendur.

Stjórnin skiptir með sér verkum. Stjórnin er ályktunarbær, ef meirihluti hennar er mættur á fundi. Afl atkvæða ræður úrslitum. Ef atkvæði falla jöfn ræður atkvæði formanns úrslitum.

Stjórn félagsins getur skipað uppstillingarnefnd. Hlutverk hennar er að sjá til þess að nægur fjöldi frambjóðenda sé í kjöri hverju sinni.

13. gr.

Stjórnin heldur fundi, þegar formanni þykir við þurfa, en auk þess er honum skylt að boða til fundar, þegar tveir stjórnarmenn krefjast þess. Formaður boðar stjórnarfundi með þeim fyrirvara, er hann telur hæfilegan eftir ástæðum, og á þann hátt, sem honum þykir tryggilegastur hvert sinn.

Stjórnin ræður öllum félagsmálum milli funda og getur, innan þeirra takmarka sem lög setja, skuldbundið félagið og eignir þess með ályktunum sínum og samningum. Til þess að skuldbinda félagið gagnvart öðrum þarf undirskrift formanns og þriggja meðstjórnenda.

14. gr.

Stjórn félagsins ræður framkvæmdastjóra, sem stjórnar skrifstofu félagsins, ræður starfsfólk til hennar og hefur á hendi allar daglegar framkvæmdir, innheimtir félagsgjöld og annast allt reikningshald, bréfaviðskipti, undirbúning og afgreiðslu mála eftir nánari fyrirmælum stjórnarinnar og í samráði við hana.

15. gr.

Starfsár félagsins og reikningsár er almanaksárið. Löggiltur endurskoðandi eða skoðunarmaður, sem kjörinn er til eins árs, skal annast tölulega endurskoðun/yfirferð reikninga félagsins.

16. gr.

Fyrir 25. janúar ár hvert, skal skrifstofa félagsins hafa lokið við reikninginn fyrir liðið starfsár og sent hann endurskoðendum eða skoðunarmanni, en þeir skulu hins vegar hafa sent stjórninni reikninginn með athugasemdum sínum innan 14 daga.

VI. kafli.

Aðalfundur.

17. gr.

Aðalfundur er lögmætur, hafi til hans verið boðað með minnst tveggja vikna fyrirvara með bréfi og/eða tölvupósti til allra félagsmanna. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum. Ef atkvæði falla jafnt, ræður hlutkesti úrslitum. Ef um lagabreytingar er að ræða, þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða.

Verði aðalfundur ekki lögmætur, skal boða til hans á ný innan eins mánaðar, með minnst viku fyrirvara með bréfi til allra félagsmanna.

Framboðsfrestur til stjórnarkjörs í félaginu, fagnefnda þess og endurskoðenda eða skoðunarmanns rennur út tveimur vikum fyrir aðalfund. Stjórnin skal auglýsa eftir framboðum minnst fjórum vikur fyrir aðalfund. Í fundarboði skal greina frá framkomnum framboðum.

Kosning skal vera skrifleg og kjósa má allt að jafnmarga frambjóðendur og þau sæti sem í boði eru hverju sinni.

Tillögur til breytinga á lögum skulu berast stjórn minnst þremur vikum fyrir aðalfund og skulu þær sendar út í fundarboði til kynningar.

Á aðalfundum skulu tekin fyrir eftirtalin mál:

Stjórn félagsins skýrir frá störfum félagsins á liðnu starfsári.

  1. Stjórn félagsins leggur fram til úrskurðar endurskoðaðan/yfirfarin reikning félagsins fyrir liðið ár með athugasemdum endurskoðenda eða skoðunarmanns, svörum stjórnarinnar og tillögum endurskoðenda eða skoðunarmanns.
  2. Stjórn félagsins leggur fram og skýrir fjárhagsáætlun fyrir næsta fjárhagsár.
  3. Lagabreytingar, svo og önnur mál, sem tilkynnt hafa verið stjórninni með minnst þriggja vikna fyrirvara, eða þau mál, sem stjórnin telur nauðsynlegt að ræða á aðalfundi.
  4. Kjör formanns og/eða stjórnarmanna.
  5. Kjör endurskoðanda eða skoðunarmanns.
  6. Kjör þriggja manna í kjararáð félagsins.
  7. Útnefning heiðursfélaga Félags atvinnurekenda samkvæmt reglum og tillögum stjórnar.

VII. kafli.

Sérgreinahópar og samkeppni.

18. gr.

Innan félagsins skulu starfa sérgreinahópar. Fjöldi þeirra fer eftir þörf og ákvörðun stjórnarinnar á hverjum tíma. Hver sérgreinahópur kýs sér formann, varaformann og meðstjórnanda. Stjórn Félags atvinnurekenda getur sett hópum nánari starfsreglur.

19. gr.

Allir félagsmenn í Félagi atvinnurekenda skulu í öllu félagsstarfi innan félagsins, hvort sem er í hópum eða utan þeirra, fara að siðareglum Félags atvinnurekenda um samkeppni. Brot á siðareglum Félags atvinnurekenda um samkeppni varðar við brottrekstur úr félaginu.

VIII. kafli.

Félagsgjöld

20. gr.

Sérstakt gjald sem reiknast sem hlutfall af greiddum launum síðasta skattárs og nefnist kjaramálagjald er ákveðið af aðalfundi Félags atvinnurekenda. Gjaldið skal standa straum af kostnaði við kjarasamninga vinnuveitenda skv. ákvörðun stjórnar Félags atvinnurekenda.

21. gr.

Aðalfundur ákveður gjaldskrá árgjalda félagsins að fenginni tillögu stjórnar. Félagsgjöld skulu innheimt í sex jöfnum greiðslum yfir árið.

Stjórn félagsins er heimilt að reikna hæstu lögleyfðu dráttarvexti á vangoldin félagsgjöld og innheimta þau með aðför að lögum, félaginu að skaðlausu, verði slíkt talið óhjákvæmilegt.

Þeir, sem segja sig úr félaginu greiða gjöld út uppsagnarfrest sinn skv. 4. gr., en hætti fyrirtæki rekstri á árinu greiðir það árgjald til loka þess ársfjórðungs sem félagsstjórn er tilkynnt að fyrirtækið sé hætt að starfa. Þegar brottvikning á sér stað, skal greiða árgjald til loka þess ársfjórðungs sem brottvikning fór fram.

IX. kafli.

Vinnudeilur og kjarasamningar.

22. gr.

Í aðild að FA felst almennt umboð til stjórnar félagsins til að gera alla kjarasamninga fyrir hönd félagsmanna. Fyrirtæki geta hins vegar ákveðið að í aðild þeirra felist ekki umboð til kjarasamningsgerðar fyrir sína hönd og verða þau þar með ekki bundin af ákvæðum slíkra samninga umfram önnur fyrirtæki sem standa utan félagsins. Gerð kjarasamninga er í höndum kjararáðs félagsins. Kjararáð skal skipað fimm mönnum, þrem kjörnum á aðalfundi félagsins til tveggja ára í senn, á sama tíma og kjör formanns. Auk þeirra sitja í kjararáði formaður félagsins og framkvæmdastjóri. Formaður kjararáðs skal kjörinn úr hópi kjörinna fulltrúa ráðsins. Leitast skal við að samsetning kjararáðs endurspegli sem best ólíkar atvinnugreinar innan félagsins.

23. gr.

Allir kjarasamningar sem gerðir eru við samtök launþega, skulu undirritaðir með fyrirvara um samþykki stjórnar félagsins. Samþykktan samning skal kynna á almennum félagsfundi eins fljótt og unnt er.

24. gr.

Rísi ágreiningur milli félagsmanns og launþega um atriði er snerta launakjör eða önnur ráðningarkjör, getur félagsmaður óskað aðstoðar félagsins til lausnar á ágreiningnum. Hafi launþegi vísað ágreiningi til meðferðar hjá stéttarfélagi er félagsmanni skylt að tilkynna það til skrifstofu félagsins.

X. kafli.

Önnur ákvæði.

25. gr.

Lögum félagsins verður ekki breytt nema á lögmætum aðalfundi, enda hafi þess verið getið í fundarboði, að lagabreytingar yrðu til meðferðar á fundinum, og sé lagabreytingin samþykkt með minnst 2/3 hlutum atkvæða.

Innskráning