Endimörk alheimsins

22.02.2023

Grein Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Fréttablaðinu 22. febrúar 2023.

„Það er mín skoðun að við séum komin algjörlega út í ystu mörk á skattlagningu [áfengis]. Þá er ég einfaldlega að vísa til þess að við erum líklega með eina dýrustu bjórkrús í Evrópu,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins á netfundi með flokkmönnum sínum í júní 2021. Rétt hjá honum. Áfengisskattar á Íslandi eru þeir langhæstu í Evrópu og áfengisverðið eftir því.

Þetta er sami Bjarni og lagði til sem fjármálaráðherra í síðasta fjárlagafrumvarpi að hækka almenna áfengisskatta um 7,7% – og í fríhafnarverzlunum voru þeir hækkaðir um 169%. Þetta var réttlætt í greinargerð fjárlagafrumvarpsins með því að það væri aðeins verið að láta krónutöluskatta fylgja verðbólgunni – og svo fylgdi kolröng staðhæfing um að þessi gjöld hefðu verið „óbreytt frá árinu 2019“. Áfengisgjald hefur verið hækkað árlega og nemur uppsöfnuð hækkun þess 16% frá 2019 til 2023.

Félag atvinnurekenda tók sér fyrir hendur, í samstarfi við Spirits Europe, Evrópusamtök áfengisframleiðenda, að skoða hvernig áfengisskattar hefðu breytzt í Evrópuríkjum um áramótin. Rétt eins og á Íslandi var metverðbólga í flestum ríkjum álfunnar á síðasta ári og erfitt ástand í ríkisfjármálum. Engu að síður breyttu 26 ríki af 36 áfengissköttum ekki neitt.

Af þeim tíu Evrópuríkjum sem breyttu sköttum lækkaði eitt áfengisskattinn, það var Króatía.

Af hinum níu var Ísland það eina sem hækkaði áfengisskatta umfram verðbólguna, eins og hún er mæld með samræmdri vísitölu neyzluverðs (sem er notuð til að bera saman verð milli Evrópuríkja). Hér á landi hækkaði skatturinn um 7,7% í 7,2% verðbólgu. Það Evrópuríki sem hækkaði næstmest miðað við verðbólgu, Rúmenía, hækkaði um 43% af verðbólgunni á sama tíma og Ísland hækkaði um 107%. Stjórnvöld í öðrum ríkjum reyndu með öðrum orðum að halda aftur af hækkunum, í þágu neytenda.

Með þessu áframhaldi getur fjármálaráðherrann okkar hins vegar farið að tileinka sér einkunnarorð Bósa ljósárs þegar kemur að áfengissköttum: Út fyrir endimörk alheimsins!

Nýjar fréttir

Innskráning