Við tökum aftur upp þráðinn frá því í vor og setjum örnámskeið FA á dagskrá. Næsta námskeið verður haldið á Teams fimmtudaginn 21. september kl. 10 og fjallar um erfiða viðskiptavini.
Flestir kannast við að fá erfiða viðskiptavini sem geta jafnvel lagst á starfsfólk eins og vörubílshlass af leiðindum. Á þessu örnámskeiði er því fjallað stuttlega um hvað virkar vel í þessum samskiptum. Örnámskeiðið byggir á rafrænu námskeiði um erfiða viðskiptavini hjá gerumbetur.is , sýndarveruleikaþjálfun og bók um efnið.
Fyrirlesari er Margrét Reynisdóttir, stofnandi gerumbetur.is. Hún er með MSc-gráðu í stjórnun og stefnumótun og MSc-gráðu í alþjóðamarkaðsfræði og hefur áratugareynslu af námskeiðahaldi fyrir stjórnendur og starfsfólk fyrirtækja.
Örnámskeið FA hafa notið mikilla vinsælda meðal félagsmanna. Þau eru haldin á netinu og miðað við að þau taki aðeins 30 mínútur; 20 mínútna fyrirlestur og svo 10 mínútur í fyrirspurnir og umræður. Örnámskeiðin eru fyrst og fremst hugsuð fyrir stjórnendur.
Skráning á námskeiðið er hér að neðan. Skráðir félagsmenn fá sendan hlekk með góðum fyrirvara.