„Endahnútur“ Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptablaðinu 21. febrúar 2024.
Félag atvinnurekenda hélt fjölsóttan fund í síðustu viku undir yfirskriftinni „Er ríkið í stuði?“ Þar var sjónum beint að því hvernig fyrirtæki í eigu ríkisins og sveitarfélaga veita einkafyrirtækjum harða samkeppni á hinum nýja og hratt vaxandi markaði hleðslu og þjónustu við eigendur rafbíla. Þarna er um að ræða Orku náttúrunnar, Orkusöluna og Orkubú Vestfjarða. Á fundinum voru sagðar sögur af undirboðum opinberu fyrirtækjanna og útþenslustefnu á markaði, sem einkaaðilar hafa alla burði til að þjónusta. Fundarefnið fékk ágæta umfjöllun í síðasta Viðskiptablaði.
Eitt af því, sem gagnrýnt var á fundinum af hálfu einkarekinna hleðslufyrirtækja, eru styrkir Orkusjóðs, sem hefur það hlutverk að flýta fyrir orkuskiptum. Við síðustu úthlutun sjóðsins, sem nam samtals tæpum milljarði, runnu 237 milljónir til innviða fyrir orkuskipti, m.ö.o. hleðslustöðva og tengds búnaðar. Þar af fór rúmlega 91 milljón til fyrirtækja í opinberri eigu, eða 38% fjárhæðarinnar. Það segir sína sögu um umsvif hins opinbera á þessum nýja samkeppnismarkaði, en er um leið í hæsta máta óeðlilegt.
Styrkir Orkusjóðs eru jafnan vegna þriðjungs kostnaðar við viðkomandi verkefni, eða 33%. þetta þýðir að fyrirtækin í eigu hins opinbera þurftu að fjárfesta fyrir samtals rúmlega 270 milljónir til að nýta styrkina. Styrkveitingar ríkisins til sjálfs sín og sveitarfélaga ýta beinlínis undir útþenslustefnu fyrirtækja í opinberri eigu, í samkeppni við einkafyrirtæki.
Á fundinum voru nefndar ýmsar leiðir sem mætti fara til að halda hinu opinbera í skefjum á þessum nýja markaði, til að mynda að aðskilja sölu og þjónustu frá raforkuframleiðslu fyrirtækja í lóðréttu eignarhaldi, setja skorður við útþenslu opinberu fyrirtækjanna eða einfaldlega selja til einkaaðila þá starfsemi sem hið opinbera hefur byggt upp á raforku- og hleðslumarkaðnum. Ein leið væri líka að undanskilja fyrirtæki í eigu skattgreiðenda styrkjum frá sömu skattgreiðendum við úthlutun úr Orkusjóði.