Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Viðskiptamogganum 28. febrúar 2024.
Tjón samfélagsins vegna samráðsbrota stóru skipafélaganna, Eimskips og Samskipa, á árunum 2008-2013, nam um 62 milljörðum króna á verðlagi síðasta árs. Þetta er niðurstaða frummats, sem Analytica vann fyrir Félag atvinnurekenda, Neytendasamtökin og VR og birt var í síðustu viku. Óhætt er að segja að matið staðfesti það sem undirritaður skrifaði hér á þessum vettvangi 6. september í fyrra, þegar ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í máli Samskipa var vikugömul; að brotin sem lýst var í þeirri ákvörðun sköðuðu íslenzkt viðskiptalíf og samfélag langt út fyrir flutningageirann. Vegna þess hvað flutningskostnaður er drjúgur þáttur í vöruverði, áttu samkeppnisbrotin sinn þátt í að hækka kostnað langflestra fyrirtækja í landinu, verð á nauðsynjum og höfuðstól verðtryggðra lána heimila landsmanna.
Þeir sem alla jafna tala eins og Samkeppniseftirlitið og samkeppnislöggjöfin sé aðallega til óþurftar, hljóta í þessu máli að þurfa að horfast í augu við að samblástur stórra fyrirtækja olli íslenzku atvinnulífi og samfélagi í heild sinni gríðarlegum skaða og að án eftirlitsstofnunar, sem hefur burði til að upplýsa slík mál, hefðu stórfyrirtækin komizt upp með það.
Eða komast þau kannski upp með það? Sektirnar sem lagðar hafa verið á skipafélögin eru innan við tíundi hluti tjónsins eins og Analytica metur það, eða 5,7 milljarðar. Duga slíkar refsingar til að fæla fyrirtæki frá samkeppnisbrotum?
Fjöldi fyrirtækja, sem eru sum hver nefnd með beinum hætti í gögnum málsins, skoðar nú stöðu sína og íhugar að fara í skaðabótamál við skipafélögin. Skaði neytenda er jafnframt mikill; samkvæmt greiningu Analytica greiddu neytendur 26,2 milljörðum meira en ella fyrir innfluttar vörur vegna samráðsbrotanna.
Á Íslandi er hins vegar erfiðara fyrir jafnt einstaklinga sem fyrirtæki að sækja bætur vegna samkeppnisbrota en í ýmsum nágrannalöndum okkar. Í Evrópusambandinu var samþykkt árið 2014 löggjöf, sem hafði það markmið að samræma reglur aðildarríkjanna um skaðabætur vegna samkeppnisbrota og auðvelda aðilum sem beðið hafa tjón vegna slíkra brota að sækja rétt sinn. Þetta er tilskipun 2014/104/ESB. Hún styrkir rétt neytenda og fyrirtækja á ýmsum sviðum, inniheldur t.d. reglur sem bæta stöðu óbeinna tjónþola, en dæmi um slíkt getur verið fyrirtæki sem hefur keypt hráefni á yfirverði af heildsala sem neyddist til að hækka verð vegna verðsamráðs framleiðenda.
Þessi löggjöf hefur verið til skoðunar hér á landi og í öðrum EFTA-ríkjum allar götur frá samþykkt hennar og hafa t.d. Samkeppniseftirlitið og Neytendasamtökin hvatt mjög eindregið til innleiðingar hennar. Ekki hefur náðst samstaða um að taka hana upp í EES-samninginn. Að hluta til er það vegna tækniatriða sem snúa að afhendingu upplýsinga á milli samkeppnisyfirvalda í EFTA og ESB-ríkjum en sömuleiðis virðist vanta upp á hinn pólitíska vilja að bæta réttarstöðu þolenda samkeppnisbrota.
Fyrir síðustu þingkosningar spurðu Neytendasamtökin stjórnmálaflokkana hvort þeir vildu innleiða tilskipunina eða setja sambærileg lög. VG og Framsókn veittu fremur loðin svör um að skoða málið. Sjálfstæðisflokkurinn vildi ekki innleiða tilskipunina en „vill fremur að réttur neytenda til að sækja skaðabætur vegna samkeppnislagabrota verði skýrður og styrktur samhliða endurskoðun samkeppnislaga.“ Það þarf kannski ekki að koma á óvart að Miðflokkurinn taldi, einn stjórnarandstöðuflokka, að ekki þyrfti „erlendar formúlur“ til að efla samkeppnislöggjöfina, en vildi „styrkja vernd íslenskra neytenda eins og þarf“. Aðrir stjórnarandstöðuflokkar vildu innleiða tilskipunina.
Eins og málið stendur núna, er samkeppnislöggjöf Íslands veikari að þessu leytinu en samkeppnislög ESB-ríkjanna og fælingarmáttur hennar gagnvart hugsanlegum lögbrjótum minni. Að sama skapi nást markmið EES-samningsins um einsleitt efnahagssvæði ekki hvað samkeppnislöggjöfina varðar og samkeppnishæfni íslenzks atvinnulífs bíður skaða af – af því að virk samkeppni og öflug samkeppnislöggjöf styrkir samkeppnishæfni. Það ætti að vera forgangsverkefni stjórnvalda að taka tilskipunina upp í íslenzk lög eða þá að smíða sambærilegar viðbætur við samkeppnislögin.