Þróun hagkerfisins á réttri leið, en ekki komin alveg á ákjósanlegan stað

05.09.2024

Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, segir að þróun hagkerfisins sé á réttri leið, en ekki alveg komin á þann stað sem Seðlabankinn kysi. Eftir síðustu vaxtaákvörðun bankans hafi komið nýjar mælingar, sem sýni að hitastigið í hagkerfinu sé jafnvel hærra en bankinn gerði ráð fyrir í ágúst. Rannveig ræddi þróun efnahagsmála við félagsmenn FA á félagsfundi í morgun. Hægt er að horfa á fundinn í spilaranum hér að neðan.

„Það sem skiptir öllu máli er að verðbólgan er sex prósent, en verðbólgumarkmiðið er tvö og hálft prósent og við vildum sjá skýrari merki um hjöðnun verðbólgu. Það er enn töluverður kraftur í þjóðarbúskapnum. Þjóðhagsreikningar sýna að það er meiri kraftur í innlendri eftirspurn en við töldum í ágúst, þegar við tókum síðustu vaxtaákvörðun. Þótt spennan á vinnumarkaði sé að minnka er hún ennþá töluverð og atvinnuleysi er lítið. Sagan er í rauninni sú að þetta er allt í rétta átt, en ekki alveg komið. Við þurfum að sjá skýrari merki um að verðbólguþrýstingurinn sé að gefa eftir og best væri að verðbólguvæntingarnar færðust í átt að verðbólgumarkmiðinu,“ sagði Rannveig í erindi sínu.

Hún gerði húsnæðismarkaðinn einnig að umtalsefni. Sagði hún að yfir 60% fyrirtækja þar töldu sig búa við skort á vinnuafli í síðustu könnun.  Það gæti því verið tvíeggjað sverð að auka umsvif þar í þeim tilgangi að auka framboð og lækka húsnæðisverð. Aukin umsvif þýddu líklegast meiri innflutning vinnuafls, sem hefði í för með sér aukna eftirspurn og aukna húsnæðisþörf, sem gæti unnið á móti verðlækkunum. 

Í máli varaseðlabankastjóra og gögnum sem hún sýndi kom meðal annars fram að þáttur innfluttra vara í verðbólgunni hefði snarminnkað. Þá kom fram að útlán til fyrirtækja hefðu aukist. Innlán heimilanna hefðu jafnframt aukist, sem væri jákvæð þróun enda fengju heimilin nú jákvæða raunvexti af bankainnistæðum. 

Líflegar umræður urðu að erindi Rannveigar loknu, m.a. um gæði gagna Seðlabankans, verðtryggingu húsnæðislána, húsnæðisþátt verðbólgunnar, hlutverk hins opinbera í hagstjórninni og raunvexti.

Glærur Rannveigar

Nýjar fréttir

Innskráning