Ekki ástæða til að taka mark á öllum læknisvottorðum

15.10.2024

Misnotkun á veikindaréttinum, sem tryggður er í lögum og kjarasamningum, brennur á mörgum félagsmönnum FA. Á félagsfundi um málið í morgun var fullt hús og mikil þátttaka í umræðum að loknu inngangserindi Gunnars Ármannssonar lögmanns, framkvæmdastjóra hjá VHE og fyrrverandi framkvæmdastjóra Læknafélagsins, en upptöku af erindinu má sjá í spilaranum hér að neðan.

Sífellt fleiri mál berast til lögfræðiþjónustu FA sem varða falskar veikindatilkynningar og tilhæfulaus læknisvottorð um óvinnufærni. Mjög færist í vöxt að fólk tilkynni veikindi á uppsagnarfresti, eftir að hafa verið sagt upp eða jafnvel eftir að hafa sjálft sagt upp störfum. Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA sagði á fundinum að þessi þróun græfi annars vegar undan þeim mikilvægu réttindum, sem veikindarétturinn sjálfur er og hins vegar undan umsömdum gagnkvæmum uppsagnarfresti vinnuveitenda og launþega. Ekki yrði hjá því komist að taka málið upp við viðsemjendur FA meðal stéttarfélaga.

Í erindi Gunnars ræddi hann meðal annars það álag, sem starfsfólk heilsugæslunnar upplifði vegna útgáfu læknisvottorða vegna umgangspesta og að í hana færi tími sem betur væri varið í að sinna fólki sem þyrfti á annars konar læknisþjónustu að halda. Gunnar sagði að samtal væri nauðsynlegt á milli heilbrigðiskerfisins, vinnumarkaðarins og stjórnvalda til að leysa úr þeim vanda.

Vottorð verða að uppfylla skilyrði
Í erindi Gunnars kom m.a. fram hvaða skilyrði læknisvottorð yrði að uppfylla til að teljast raunveruleg sönnun um veikindi. Það þyrfti meðal annars að byggjast á raunverulegri skoðun læknis á sjúklingi, en ekki gögnum úr sjúkraskrá eða frásögn sjúklings af veikindum. Þá yrði skoðunin að vera dagsett og væri ekki afturvirk sönnun á veikindum nema í undantekningartilvikum. Í umræðum að erindi loknu benti Gunnar á að ekki væri ástæða til að taka mark á læknisvottorðum sem ekki uppfylltu þessi skilyrði og þá væru rafræn veikindavottorð frá Heilsuveru í raun engin sönnun fyrir veikindum, enda byggðust þau ekki á neinni læknisskoðun.

Talsvert var rætt um hlutverk trúnaðarlækna, en fyrirtæki eiga í sumum tilvikum þann kost að leita til trúnaðarlækna sem ræða við lækna sem gefið hafa út læknisvottorð til að sannreyna hvort skoðun hafi leitt óvinnufærni í ljós.

Í umræðum meðal félagsmanna kom fram að mörg fyrirtæki óttuðust að það leiddi af sér neikvæða umræðu um þau að vefengja læknisvottorð eða tillkynningar um veikindi. Gunnar benti á að ákveðið þrek þyrfti til að standa gegn augljóslega ómálefnalegum og órökstuddum kröfum um greiðslu veikindalauna. Ólafur framkvæmdastjóri benti jafnframt á að lögfræðiþjónusta FA gæti stutt við bakið á félagsmönnum í slíkum málum, enda væri sjálfsagt að fyrirtæki létu reyna á rétt sinn ef kröfur væru ekki nægilega rökstuddar.

Myndir frá fundinum má sjá hér að neðan.

Glærur Gunnars

Nýjar fréttir

Innskráning